Þingflokkur VG fundar í kvöld

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon koma af ríkisstjórnarfundi í …
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon koma af ríkisstjórnarfundi í síðustu viku eftir að Ögmundur hafði sagt af sér. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs kemur saman til fundar kl. 21 í kvöld. Á fundinum mun Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, gera grein fyrir umræðum sem hann átti á ársfundi Alþjóðagjaldeyissjóðsins í Tyrklandi um Icesave og efnahagsáætlun sjóðsins. Einnig verður rætt um ríkisstjórnarsamstarfið.

Óánægja er innan þingflokks VG með hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á Icesave-málinu, en ágreiningurinn varð til þess að Ögmundur Jónasson sagði af sér embætti heilbrigðisráðherra. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður, gagnrýndi harðlega hvernig staðið hefur verið á málum í Silfri-Egils um helgina.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í gær að ljóst væri að Icesave-deilan ylli erfiðleikum í stjórnarsamstarfinu. Össur og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, komu sér undan því svara þegar þau voru spurð eftir fundinn, hvort ríkisstjórnin myndi standa af sér þann ágreining sem væri um þetta mál.

Reglulegum þingflokksfundi VG sem vera átti á mánudag var aflýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert