Þvílík vika hlaut Íslenskubarnabókaverðlaunin

Sigþrúður Gunnarsdóttir hjá Forlaginu afhendir Guðmundi Brynjólfssyni verðlaunin
Sigþrúður Gunnarsdóttir hjá Forlaginu afhendir Guðmundi Brynjólfssyni verðlaunin mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðmundur Brynjólfsson hlaut í dag Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir unglingasöguna Þvílík vika, sem komin er út hjá Vöku-Helgafelli. Þetta er fyrsta skáldsaga Guðmundar en hann hefur áður hlotið viðurkenningar fyrir smásögur og leikrit.
 
Þvílík vika er unglingasaga úr samtímanum sem gerist á einni viku í byrjun júní. Þrír vinir eru að ljúka grunnskóla og ætla að fagna því rækilega. En margt getur breyst á einni viku og ýmislegt fer öðruvísi en þeir höfðu ætlað, að því er segir í tilkynningu.
 
Guðmundur Brynjólfsson er bókmennta- og leikhúsfræðingur að mennt og hefur auk þess lokið djáknanámi. Á síðasta ári sigraði hann í samkeppni Forlagsins og barnabókahátíðarinnar Draugar úti í mýri um draugasmásögur fyrir börn með sögu sinni At? Árið 2006 hreppti leikrit hans Net 2. sæti í handritasamkeppni Borgarleikhússins og leikrit sem hann skrifaði í félagi við Berg Ingólfsson, 21 manns saknað, var tilnefnt til Grímuverðlaunanna fyrr á þessu ári. Um þessar mundir er annað leikrit eftir þá félaga, Horn á höfði, á fjölum Grindvíska atvinnuleikhússins.
 
Þvílík vika var valin úr hópi 35 innsendra handrita. Dómnefndin var skipuð fulltrúum frá Forlaginu, IBBY á Íslandi, Barnavinafélaginu Sumargjöf og erfingjum rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar, auk tveggja nemenda úr Árbæjarskóla. Verðlaunaféð nemur 400.000 krónum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert