Svæðisfélög
Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Húnavatnssýslum og Skagafirði harma
framgöngu forystumanna stjórnarflokkanna gagnvart landsbyggðinni og Norðurlandi
vestra sérstaklega. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félögunum.
„ Um leið og það er viðurkennt að allir þurfi að taka á sig auknar byrðar nú er því mótmælt að vegið sé að einum landshluta umfram aðra með þeim tillögum að niðurskurði sem kynntar hafa verið.
Á meðan nota á lífeyri landsmanna til að fjármagna fjölda stórframkvæmda á suðvesturhorni landsins verður ekki boðinn út vegspotti í landshlutanum á næsta ári eða viðhaldið þeirri lágmarks snjómokstursþjónustu sem þarf til að tengja saman atvinnusvæði.
Áform eru um niðurskurð á opinberri þjónustu langt umfram þau viðmið sem boðuð hafa verið á landsvísu og flutning verkefna og starfa til höfuðborgarsvæðisins, svo sem með niðurlagningu sýslumannsembætta og héraðsdómstóls án þess að haldbær rök hafi verið færð fyrir sparnaði af slíkum tilflutningi. Tillögur sem fela í sér upplausn stjórnkerfisins, aukna embættismannavæðingu og miðstýringu frá höfuðborgarsvæðinu eru að auki til þess fallnar að rjúfa tengsl við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og takmarka möguleika landsbyggðarinnar til að nýta auðlindir sínar og mannauð.
Af sama toga eru hugmyndir forkólfa svokallaðrar sóknarnefndar forsætisráðherra. Ef þær ná fram að ganga verður ennfremur einn landshluti, Norðurland vestra, eitt gömlu kjördæmanna skilinn eftir þegar skilgreind verða stjórnsýslu og vaxtarsvæði landsins. Að óbreyttu er verið að boða sóknaráætlun gegn landsbyggðinni."