VR: Ótrúverðug framkoma stjórnvalda

Stjórn VR mótmælir harðlega þeim fyrirætlunum stjórnvalda að ætla ekki að standa við hækkun persónuafsláttar. Fram kemur í ályktun félagsins að slík framkoma sé ekki trúverðug fyrir ríkisstjórn sem kenni sig við velferð og skjaldborg um heimilin í landinu.

„Ekki frekar en sú þversögn að á sama tíma og vinstri höndin hækkar álögur á almenning í formi neysluskatta og eykur á skuldavanda heimila og fyrirtækja er sú hægri að leysa þann sama skuldavanda með lánalengingum. Slíkt gengur einfaldlega ekki upp.

Í sumar var gerður þríhliða sáttmáli á milli launþega, launagreiðenda og stjórnvalda sem átti að skapa þann stöðugleika og viðspyrnu sem nauðsynleg er til að landsmenn allir komist úr þeim vanda sem græðgi og fyrirhyggjuleysi fárra kom þjóðinni í. Sýndu launþegasamtök þar mikla ábyrgð, fórnfýsi og vilja til að bera byrðar annarra, þar á meðal stjórnvalda.

Hvernig launa stjórnvöld greiðann? Með því að leggja enn þyngri byrðar á almennt launafólk en sátt var um og það svo ójafnar og óréttlátar að hin beygðu bök eru broti næst. Það er kannski ætlun stjórnvalda að murka hægfæra lífið úr efnahagskerfinu og þeim sem bera það uppi, launþegum og launagreiðendum? Það hafa hingað til þótt slæm búvísindi að slátra mjólkurkúnni fyrir stundarhagsmuni.

Stjórn VR skorar á ríkisstjórnina og alþingi að nota tækifærið nú til að leiðrétta óréttlæti fyrri stjórna, að hækka skattleysismörk verulega og hækka skattprósentuna á móti. Þannig má  laga skattbyrðina og færa upp á við í tekjustiganum. Einnig bendir VR á þá leið að taka upp fastskattavísitölu sem drægi úr áhrifum neysluskatta á vísitölu til verðtryggingar og að frekari áhersla verði lögð á beina skatta. Þannig má forðast óþarfa hækkun á höfuðstól og afborgunum verðtryggðra lána almennings þrátt fyrir nauðsynlega tekjuöflun ríkisins,“ segir í ályktun VR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert