Gert er ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður þurfi á þessu ári að greiða 25,3 milljarða króna í atvinnuleysisbætur og 28,4 milljarða á því næsta.
Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir 17,6 milljarða króna fjárframlagi til Atvinnuleysistryggingasjóðs en í fjáraukalögum, sem lögð voru fram í dag, er farið fram á 7,7 milljarða króna framlag til viðbótar.
Er vísað til þess, að spár geri ráð fyrir að atvinnuleysi á árinu 2009 verði að jafnaði 8,6%, sem svarar til þess að um 14.400 manns verði að jafnaði án atvinnu á árinu þar sem reiknað er með að um 166.000 einstaklinga verði á vinnumarkaði árið 2009. Í forsendum fjárlaga var reiknað með 5,7% atvinnuleysi á árinu. Hvert prósentustig atvinnuleysis kostar um það bil 2,9 milljarða króna.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, sem verið er að ræða um á Alþingi þessa stundina, er gert ráð fyrir að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs verði 28,4 milljarðar króna árið 2010. Þar er miðað við spá um 10,6% atvinnuleysi á næsta ári, og að 17.400 manns verði að jafnaði án atvinnu á árinu.