Aldrei fleiri stúdentar

mbl.is/Kristinn

Alls brautskráðust 5536 nemendur af framhaldsskólastigi með 6150 próf skólaárið 2007-2008. Þetta er fjölgun um 482 nemendur frá fyrra ári, eða 9,5%.

Hagstofan segir, að aldrei áður hafi svo margir nemendur útskrifast af framhaldsskólastigi á einu skólaári og ástæðan sé m.a. sú að stórir árgangar séu að fara í gegnum framhaldsskólann. Konur voru nokkru fleiri en karlar meðal brautskráðra eða 53,3% nemenda. 

Alls útskrifuðust 2810 stúdentar úr 32 skólum skólaárið 2007-2008, 251 fleiri en skólaárið áður sem er 9,8% fjölgun. Ekki hafa áður útskrifast svo margir stúdentar frá íslenskum skólum á einu skólaári.

Körlum meðal nýstúdenta fjölgaði mun meira en konum, eða um 144 (14,6%) en konum fjölgaði um 107 (6,8%) frá fyrra skólaári. Enn ljúka þó miklu fleiri konur en karlar stúdentsprófi. Skólaárið 2007-2008 luku 1677 konur stúdentsprófi, 71,3% af fjölda tvítugra það ár en 1133 karlar, 45,3% af fjölda tvítugra.

Brautskráningar úr starfsnámi á framhaldsskólastigi voru 3165 og hafa ekki verið fleiri á einu skólaári. Brautskráðir nemendur með sveinspróf voru 678. Sveinum fjölgaði um 14 frá fyrra ári (2,1%) og eru karlar rúmlega þrír af hverjum fjórum sem ljúka sveinsprófi (76,7%) en konum fjölgaði um fimmtung (21,5%) meðal sveina frá fyrra ári. Þá voru 878 brautskráningar með ýmiss konar starfsréttindi á framhaldsskólastigi. Brautskráðir iðnmeistarar voru 178 og hafa ekki áður verið fleiri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert