„Búið að lægja ólguna“

Þingmenn VG á fundi í gærkvöldi.
Þingmenn VG á fundi í gærkvöldi. mbl.is/Ómar

Þingflokkur Vinstri grænna kom saman á skrifstofu sinni við Aðalstræti í gærkvöldi. Eftir fundinn sagði Ögmundur Jónasson að fundurinn hefði verið jákvæður og góður og eindreginn vilji allra til að finna lausnir á ágreiningsmálum.

Aðspurður sagði hann þó að ekkert nýtt hefði komið fram á fundinum sem gerði honum auðveldara að styðja málstað ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu. „Nei, það var ekki. En það var heldur ekkert sem kom fram sem gerði málið verra í mínum augum.“

Eftir fundinn sagði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður þingflokksins, að mikill einhugur væri í hópnum um að þétta raðirnar og vinna af heilindum í áframhaldandi stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna. Búið væri að lægja ólguna. Sagði hún að rætt hefði verið á fundinum um að starfhæf ríkisstjórn þyrfti að vera í landinu.

Aðspurð sagði hún að formaðurinn hefði sagt frá ferð sinni til Tyrklands. „En það hefur ekki komið neitt nýtt fram á fundinum sem slíkum. Hér voru hreinskiptnar umræður um ágreiningsmál okkar. Að sjálfsögðu er ennþá uppi málefnalegur skoðanamunur á þessum hlutum en við viljum og ætlum að leiða hann til lykta á farsælan hátt.“

„Þetta var mjög góður fundur og þar var áréttuð mikil eindrægni um að halda áfram þátttöku í ríkisstjórn,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður VG. „Það hefur mikið verið rætt um klofning en við höfum engar áhyggjur af því eftir þennan fund.“ Hún sagði að áfram yrði unnið að því að leysa deilurnar um AGS og Icesave farsællega. Steingrímur hefði farið lítillega yfir ferð sína til Istanbúl en myndi áreiðanlega segja betur frá þeim málum síðar.A

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert