Tenórsöngvarinn Stefán Helgi Stefánsson hefur svo sannarlega sungið sig inn í hug og hjörtu Alzheimersjúklinga á höfuðborgarsvæðinu. Hann reynir að heimsækja hvert heimili mánaðarlega og í gær söng hann meðal annars í Fríðuhúsi í Reykjavík.
„Það er dásamlegt að syngja fyrir þennan hóp,“ segir Stefán Helgi. Hann bætir við að hann syngi gjarnan íslensk lög sem fólkið þekki og því taki það oft undir. „Ég finn það að fólkið er afskaplega þakklátt og mér líður ofboðslega vel að geta gert svona góðan hlut.“
Margrét Sesselja Magnúsdóttir átti hugmyndina að „elligleðinni“. „Þetta hófst með því að mamma, sem er með Alzheimer, var að verða níræð í vetur sem leið og því fórum við systkinin að hugsa út í hvað væri hægt að gera fyrir hana í tilefni dagsins,“ rifjar hún upp. Hún segir að gjafir hefðu í sjálfu sér engu máli skipt fyrir móður sína, þar sem hún tæki ekki eftir þeim ástands síns vegna.
„Okkur datt í hug að það gæti verið skemmtileg tilbreyting að fá einhvern til að syngja fyrir hana og nefndi það við deildarhjúkrunarfræðinginn á Hrafnistu, sem tók vel í hugmyndina. Úr varð að við fengum tvo söngvara og undirspilara til þess að syngja íslensk lög og ég, eins og aðrir, upplifði magnaða hluti, eitthvað sem ég hefði aldrei trúað að gæti gerst að óreyndu.
15 manns eru á deildinni, flestir í hjólastól og sumir ólaðir niður svo þeir detti ekki úr stólunum. Venjulega bregðast þeir ekki við neinu, sitja bara og láta tímann líða, en þegar söngurinn byrjaði færðist líf í andlit þeirra.“