Nú er gert ráð fyrir að Ísland þurfi að greiða 950 milljónir króna á þessu ári í þróunarsjóð EFTA. Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir 89 milljóna króna framlagi í sjóðinn.
Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2009, sem lagt var fram á Alþingi í dag, segir að með samningum í tengslum við stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins hafi verið samið um aukin framlög EFTA-ríkjanna þriggja til fjármögnunar á umbótum og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa illa í efnahagslegu tilliti. Löndin sem njóta góðs af þessum verkefnum eru þau sem gengið hafa í ESB frá 2004 auk Spánar, Portúgals og Grikklands.
Í frumvarpinu segir, í samningaviðræðum hafi Ísland ávallt lagt á það ríka áherslu að engin lagaleg skuldbinding standi til greiðslna af þessu tagi sem birtist í því að ávallt hefur verið samið til 5 ára í senn. Framlagið sé í formi greiðslna vegna verkefna á vegum þróunarsjóðsins á tímabilinu 1. maí 2004 til 30. apríl 2009.
Töluverður tími hefur yfirleitt liðið frá því styrkhæf verkefni fara í umsóknarferli þar til þau eru afgreidd og greiðslur til sjóðsins vegna þeirra hefjast. Frá stofnun EES hefur Ísland greitt sem svarar til um það bil einni milljón evra á ári til þróunarsjóðsins, jafnvirði um 185 milljóna króna.
Gert er ráð fyrir að greiðslur ársins 2009 geti orðið um 950 milljónir á þessu ári. Í frumvarpinu segir, að um sé að ræða greiðslur sem falla til vegna verkefna sem tilheyra samningstímabilinu 2004 til 2009. Fjárheimild í fjárlögum hafði verið lækkuð mikið í ljósi þess að umtalsverðar afgangsheimildir höfðu safnast upp og verið fluttar milli ára.