Leiðrétting: Sjóðir innan lagaheimilda

Peningamarkaðssjóðum viðskiptabankanna, Landsbankans, Glitnis og Kaupþings, var heimilt að binda …
Peningamarkaðssjóðum viðskiptabankanna, Landsbankans, Glitnis og Kaupþings, var heimilt að binda meira en tíu prósent af eignum sínum í skuldabréfum útgefnum af sama aðila. mbl.is

Peningamarkaðssjóðum viðskiptabankanna, Landsbankans, Glitnis og Kaupþings, var heimilt að binda meira en tíu prósent af eignum sínum í skuldabréfum útgefnum af sama aðila. Í frétt Viðskiptablaðs Morgunblaðsins í dag kemur fram að sjóðunum hafi verið þetta óheimilt. Það er rangt.

„Fjárfestingarsjóðum er heimilt að binda allt að 20% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda. Þó er heimilt að binda allt að 35% af eignum sjóðs í skráðum verðbréfum í kauphöll og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda enda sé fjárfesting yfir 20% aðeins í einum útgefanda," segir í lögum um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði. Peningamarkaðssjóðir voru skilgreindir sem fjárfestingarsjóðir.

„Ekki var því um brot á lögum um fjárfestingarheimildir að ræða eins og haldið er fram í fréttinni," segir í yfirlýsingu sem Landsvaki, rekstrarfélag sjóða Landsbankans, sendi frá sér í dag.

Sigurður G. Valgeirsson, upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins sendi líka inn yfirlýsingu í kjölfar fréttarinnar: „Blaðamaður Morgunblaðsins hafði réttilega eftir mér í gær að rannsóknir Fjármálaeftirlitsins á peningamarkaðssjóðum stæðu enn yfir og að vonandi væri niðurstaðna að vænta á næstu vikum. Ég vil þó taka fram að þetta var almennt svar við spurningu um hvað væri að frétta af rannsóknum á peningamarkaðssjóðum en sneri ekki að fjárfestingum þeirra eins og mögulega má skilja af lestri greinarinnar," segir í yfirlýsingunni. Þá er ítrekað að aðrar upplýsingar í fréttinni komi ekki frá FME.

Svar gefið við almennri spurningu

Yfirlýsing frá Landsvaka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert