Metfjöldi útskrifaðist úr háskólum

Frá brautskráningu kandídata úr Háskóla Íslands.
Frá brautskráningu kandídata úr Háskóla Íslands. mbl.is/ÞÖK

Á háskólastigi útskrifuðust 3588 nemendur með 3611 próf skólaárið 2007-2008. Aldrei hafa fleiri útskrifast úr námi á háskólastigi á Íslandi á einu skólaári síðan gagnasöfnun Hagstofunnar hófst árið 1995.

Brautskráðum nemendum fjölgaði um 68, eða 1,9% frá árinu áður. Konur voru tveir þriðju (66,4%) þeirra sem útskrifuðust með próf á háskólastigi og karlar þriðjungur (33,6%) útskrifaðra, sem er svipað og verið hefur undanfarin ár.

Ekki hafa fleiri lokið meistaragráðu á Íslandi á einu skólaári til þessa. Þeir voru 735 og fjölgaði um 123 frá fyrra ári, sem er fjölgun um fimmtung (20,1%). Þá luku 23 doktorsprófi á skólaárinu, og hafa ekki fleiri doktorar útskrifast á einu ári frá íslenskum háskólum.

Flestar brautskráningar á háskólastigi eru vegna nemenda sem ljúka fyrstu háskólagráðu. Þær voru 2.374 talsins skólaárið 2007-2008 og hefur fækkað um 130 frá fyrra ári (5,2%). Nú fjölgar útskrifuðum háskólanemendum eingöngu vegna fjölgunar nemenda sem ljúka meistara- og doktorsgráðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert