Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar mótmælir ákvörðun umhverfisráðherra að fella úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar um suðvesturlínu sem hún segir tefja mikilvæga atvinnuuppbyggingu á svæðinu og jafnvel tefla henni í tvísýnu.
Bæjarstjórnin fundaði í gær og samþykkti samhljóða eftirfarandi ályktun:
„Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar mótmælir harðlega ákvörðun umhverfisráðherra um að fella úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar um suðvesturlínu og með því tefja mikilvæga atvinnuuppbyggingu á svæðinu og jafnvel tefla henni í tvísýnu.
Bæjarstjórn bendir í þessu sambandi á að atvinnuástand á Suðurnesjum er hvað verst á öllu landinu og skatttekjur sveitarfélaganna í samræmi við það. Ákvörðun ráðherrans skemmir fyrir áralöngum undirbúningi og mikilli vinnu sveitarfélaganna í atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Bæjarstjórn bendir einnig á óöryggi á flutningi rafmagns inn á svæðið við núverandi aðstæður.
Bæjarstjórn krefst þess að ákvörðun ráðherra verði endurskoðuð tafarlaust og hún dragi ákvörðun sína til baka.“