Samtals hafa níu einstaklingar verið lagðir inn á sjúkrahús af völdum staðfestrar inflúensu A(H1N1)v 2009. Fimm þeirra voru lagðir inn í október og eru allir með undirliggjandi langvinna sjúkdóma, einn sjúklingur er á gjörgæsludeild. Í síðasta mánuði var einn lagður inn á gjörgæslu vegna svínaflensunnar.
Á vef landlæknis kemur fram að svo virðist sem inflúensan sé aftur að færast í aukana á höfuðborgarsvæðinu en samtímis dregur úr fjölda sýkinga á landsbyggðinni. Líklegt er að inflúensutilfellum fari fjölgandi á höfuðborgarsvæðinu á næstunni.
1.895 tilkynningar en 252 staðfest tilvik
Frá 29. júní – 5. október 2009 bárust samtals 1.895 tilkynningar um tilfelli með inflúensulík einkenni (ILE) eða staðfesta inflúensu samkvæmt skráningum lækna í rafræna sjúkraskrá. Þar af voru 864 karlar og 1031 konur.
Á höfuðborgarsvæðinu jókst vikulegur fjöldi tilfella fram í miðjan september. Eftir það dró nokkuð úr útbreiðslunni þangað til í síðustu viku. Í síðustu viku varð umtalsverð aukning á inflúensugreiningum, en vikulegur fjöldi inflúensugreininga var sá hæsti hingað til.
Á landsbyggðinni greindust flestir með inflúensulík einkenni um miðjan ágúst en eftir það fór tilfellum fækkandi, einnig í síðustu viku á meðan það mátti sjá mikla fjölgun á inflúensugreiningum í höfuðborginni.
Flestir á aldrinum 15-34 ára
Flest tilfellin eru í aldurshópnum 15–34 ára en töluvert er af tilfellum hjá fólki á aldrinum 40–59 ára sem greinast með einkenni inflúensu. En eftir sextugt fækkar tilfellum verulega bæði meðal þeirra sem eru með staðfesta inflúensu skv. sýnatöku og þeirra sem koma til læknis með einkenni inflúensu.
Svo virðist sem inflúensan nái útbreiðslu í afmörkuðum hópum og gangi nokkuð hratt yfir. Dæmi um þetta eru sýkingar á Grundarfirði sem greindust seinni hluta sumars. Nokkru síðar var töluvert um sýkingar í grunnskólanum á Ísafirði og um svipað leyti greindust mörg tilfelli á Djúpavogi. Sama mynstur má sjá á höfuðborgarsvæðinu en þar berast fregnir um útbreidd veikindi í stöku skólum á meðan minna er um veikindi annars staðar.
Þann 5. október 2009 höfðu alls 252 manns greinst með inflúensu A(H1N1)v 2009 á Íslandi, sem staðfest var á veirufræðideild Landspítala. Þar af voru 136 karlar og 116 konur. Greinst hafa tilfelli með búsetu á öllum sóttvarnaumdæmum nema í Vestmannaeyjum.