Vöruinnflutningur hefur dregist saman um helming

Nýskráningum bíla hefur fækkað um 80%.
Nýskráningum bíla hefur fækkað um 80%.

Gengi krónunnar lækkaði um 48% fyrstu sjö mánuði ársins og vöruinnflutningur dróst saman um 50% á föstugengi. Þetta endurspeglast í vörugjöldum af innflutningi og aðflutningsgjöldum sem skila mun færri krónum í ríkissjóð en í fyrra.

Fram kemur í fjáraukalagafrumvarpi fyrir yfirstandandi ár, að nýskráningum bíla á fyrstu átta mánuðum ársins hafi fækkað um 80% milli ára sem sé meiri fækkun en svartsýnustu spár gáfu til kynna haustið 2008. Vörugjöld af ökutækjum, sem skiluðu ríkissjóði yfir 11 milljörðum í skatttekjur árið 2007 þegar mest var hafa aðeins skilað 1,4 milljarða tekjum á fyrstu átta mánuðum ársins 2009.

Sölumagn bensíns á fyrstu átta mánuðum ársins er svipað og í fyrra eftir uppsveiflu sumarsins en er spáð að dragist saman frá haustinu. Olíusala hefur minnkað um 19% sem er meiri samdráttur en reiknað var með í upphafi árs. Aðeins hefur dregið lítillega úr sölumagni áfengis en tóbaks um 6% á fyrstu átta mánuðum ársins. Reiknað er með vaxandi samdrætti þessara skattstofna á næstu mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert