Ekki sótt um undanþágu fyrir Ísland

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, ætlar ekki að biðja um undanþágur fyrir stóriðju eða aðra starfsemi á Íslandi á ráðstefunni í Kaupmannahöfn þar sem ganga á frá nýju samkomulagi sem taki við af Kýótó-bókuninni. Þetta kom fram í máli Svandísar á umhverfisþingi sem nú stendur yfir í Reykjavík.

Hún segir menn misbjartsýna á árangur í Kaupmannahöfn, en enginn dragi í efa nauðsyn þess að nýtt samkomulag um hertar aðgerðir líti dagsins ljós þar eða fljótlega í kjölfarið, því vandinn hverfur ekki.

„Það skiptir máli að allir komi að borðinu í Kaupmannahöfn með gagnlegt innlegg, en ekki sérkröfur og undanþágubeiðnir. Ég hyggst gera það fyrir Íslands hönd og ætla ekki að biðja þar um nýjar undanþágur fyrir stóriðju eða aðra starfsemi á Íslandi. Við eigum að vinna innan alþjóðlegs regluverks í loftslagsmálum, en ekki reyna að fá undanþágur til að vera einhvers konar aflandsparadís fyrir mengandi losun.

Það eru heldur engar líkur til að slíkar beiðnir falli í frjóan jarðveg og þær því einkum til þess fallnar að draga úr orðspori Íslands. Við þurfum ekki á slíku að halda. Við eigum frekar að reyna að leita leiða til að reisa það til vegs og þar getur metnaðarfull stefna og góður árangur í loftslagsmálum reynst okkur heillavænleg," segir Svandís.

Raunveruleg verðmæti sett á brunaútsölu

Hún segir marga vilja að við setjum okkar raunverulegu verðmæti – auðlindir og náttúru landsins – á brunaútsölu til að stoppa í einhver göt, kannski í von um að óheftur vöxtur og árið 2007 komi þá aftur.

 „Mikil ásókn er í orkulindir Íslands, enda er fyrirsjáanlegt að orkuverð víða um heim muni fara hækkandi, m.a. vegna þess að aukin gjöld verða lögð á jarðefnaeldsneyti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við hljótum að spyrja hvort menn geri sér vonir um að fá ódýran aðgang að orku hér við þær aðstæður sem nú ríkja á Íslandi og hvort við viljum binda orkulindir okkar til langrar framtíðar til einhæfra nota og til örfárra fyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert