Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra funduðu með forystu Alþýðusambands Íslands og Samtökum atvinnulífsins í Karphúsinu fyrr í dag. Aðilar vinnumarkaðarins lýstu yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahagsmála.
Rætt var sérstaklega um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Icesave-málið, ríkisfjármálin og önnur atriði sem aðilar vinnumarkaðarins töldu mikilvægt að koma á framfæri með beinum hætti, en ASÍ og SA boðuðu til fundarins. Skattamál voru rædd og komu fram áhyggjur frá SA af því að orku- og auðlindaskattar, upp á ríflega 16 milljarða, myndu draga úr vilja til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir atriði stöðugleikasáttmálans, sem samþykktur var í sumar, hafa verið rædd fram og til baka. „Við vildum einnig gera stjórnvöldum það ljóst að það yrðu að liggja fyrir niðurstöður í viðræðum um hvort kjarasamningar verði framlengdir 27. október. Það er veruleg hætta á því að þeir verði það ekki ef staðan í efnahagsmálum fer ekki að breytast.“
Sérstaklega var rætt um mikilvægi þess að ljúka Icesave-málinu þannig að efnahagsmál landsins kæmust úr þeim ógöngum sem þau eru í nú.
Engin sérstök niðurstaða varð á fundinum, önnur en sú að reyna með öllum ráðum að flýta því að ná ásættanlegri niðurstöðu í Icesave-málið til að flýta fyrir framgangi efnahagsmála og skapa þannig möguleika á framlengingu kjarasamningana.