Segir um grófa atlögu ráðherra að ræða

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hafi gert grófa atlögu að stöðugleikasáttmálaum með því að fella úr gildi án lagaheimilda ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á Suðvesturlínu.

„Með ólöglegri ákvörðun sinni er umhverfisráðherra að gera atlögu að stöðugleikasáttmálanum og að leggja sitt af mörkum til þess að setja vinnumarkaðinn í uppnám. Eins og að það sé brýnasta verkefni samfélagsins að fara í stríð á vinnumarkaðnum? Nei, ég segi við ráðherrann: Þessa ólöglegu ákvörðun verður að afturkalla. Nú er nóg komið. Atvinna fólks og vinnufriður eru ekki leikföng," sagði Vilhjálmur í ræðu sinni á umhverfisþingi sem nú stendur yfir.

Vill að einhver bendi Svandísi á að hún er í ríkisstjórninni

Hann segir aðila vinnumarkaðarins hafa gert stöðugleikasáttmálann við ríkisstjórnina í góðri trú og í vinnslu hans hafi þeim aldrei tjáð verið að það væru nein sérstök vandkvæði á því að tryggja að engar hindranir yrðu af hálfu opinberra aðila í vegi álversins í Helguvík og tengdra framkvæmda þann 1. nóvember næstkomandi.

„Það er athyglisvert að ráðherrann talar ítrekað um „þá sem gerðu stöðugleikasáttmálann“ þegar hún er að verja ákvörðun sína. Samt er ríkisstjórnin aðili að sáttmálanum. Í hausnum stendur „ríkisstjórn Íslands“. Er ekki ráð að einhver veljviljaður ráðherranum hér á þessu þingi hnippi í hana og vekji athygli hennar á því að hún er í ríkisstjórninni og sjálf aðili að sáttmálanum?"

Strandveiðar gamalsdags atkvæðakaup

Vilhjálmur gerði sjávarútveginn að umtalsefni í ræðu sinni. Hann segir að ábyrg stjórnun fiskveiða byggi á þremur meginstoðum sem allar hafa veigamikið hlutverk. „Fyrsta stoðin er ákvörðun um hversu mikið megi veiða, önnur stoðin er hver á að veiða og þriðja stoðin er hvernig eigi að veiða sem fjallar líka um hvar og hvenær. Stoðirnar þurfa allar að vinna saman að sama marki. Í öllum alþjóðlegum samanburði hafa Íslendingar náð mjög góðum árangri við stjórn fiskveiða. Stoðirnar þrjár virka betur hér en víðast annars staðar.

Fyrirtækin hafa ennfremur verið tilbúin til að vinna með stjórnkerfinu og fjárfest og skipulagt rekstur sinn á grundvelli langtíma hugsunar. Tækifærismennska og skammtímasjónarmið eru þó skammt undan og freistingar óábyrgra stjórnmálamanna eru stundum óbærilegar.

Það erum við að upplifa núna með svokölluðum strandveiðum sem eru gamaldags atkvæðakaup á kostnað heildarhagsmuna. Jafnvel fræðimenn í faginu taka að sér að leiða ábyrgðarleysið.

Eina slíka kenningu vil ég kalla „veiða meira kenninguna“. Hún gengur út á að þegar illa árar í sjónum þurfi að grisja fiskinn með því að veiða meira. Þess vega eigi að heimila auknar veiðar. En svo þegar vel árar og fiskurinn vex hratt og vel, þá er líka sjálfsagt að veiða meira. Um að gera að auka veiðar við þau skilyrði. Sem sé, það er alltaf hægt að veiða meira, sama hvernig skilyrðin í sjónum eru," segir Vilhjálmur. Auðlindaskattinn bar einnig á góma í erindi Vilhjálms á umhverfisþingi. Hann segir sérstaka skattlagningu á orkufrekan iðnað hvergi tíðkast.

„Áhrifin verða fyrst og fremst þau að fæla fjárfesta frá og byggja starfsemina upp annars staðar. Umhverfisáhrifin eru því engin. Það eru alger öflugmæli að kynna þessa skattheimtu sem umhverfisgjöld," að sögn Vilhjálms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert