Hugsanlegt er að þorskur á Bretlandsmiðum muni leita norður á bóginn í íslensku, norsku og grænlensku landhelgina vegna hlýnunar hafsins á næstu áratugum.
Leiddar eru líkur að þessu í niðurstöðum nýrrar rannsóknar, Hafið umhverfis okkur, sem vísindamenn við Háskólann í bresku Kólumbíu í Kanada unnu að og fjallað er um í nýjasti hefti vísindaritsins Global Change Biology.
Rakið er hvernig hlýnun hafsins kunni að leiða til útrýmingar fisktegunda á heitari hafsvæðum.
Á móti komi að fiskigengd kunni að aukast um tugi prósenta á norðlægum slóðum fyrir miðja öldina. Spár sem þessar eru háðar mörgum fyrirvörum, m.a. um ástand einstakra fiskistofna, samspilið þeirra á milli og fæðuframboðið.