Íslendingum fækkar enn

Fleiri virðast flytja frá landinu en áður og er kreppan …
Fleiri virðast flytja frá landinu en áður og er kreppan talin helsta skýringin þar á. mbl.is/Brynjar Gauti

Samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár voru landsmenn 318.906 talsins 1. október síðastliðinn. Hafði þeim þá fækkað um 340 frá miðju ári þegar þeir voru 319.246. Hraðinn í fólksfækkuninni virðist hafa aukist eftir því sem liðið hefur á árið en á fyrri helmingi árs fækkaði landsmönnum um 122.

Segir í Morgunkorni Íslandsbanka að svo virðist sem áhrif kreppunnar á fólksfjöldann í landinu sé að aukast eftir því sem hún dýpkar og verður meira langvarandi.

„Er vel þekkt að í kreppum tekur nokkurn tíma fyrir íbúa að taka sig upp og flytja sökum efnahagsástandsins. Má reikna með því að eftir því sem kreppan verði meira langvarandi og þá sérstaklega atvinnuleysið viðvarandi þá muni búferlaflutningar færast í aukanna og landsmönnum fækka. Það getur einnig aukið á þessi áhrif að botni samdráttarskeiðs virðist nú hafa verið náð í mörgum nágrannalanda okkar og sjá menn þar fram á betri tíð á komandi misserum. Líklegt er að í ofangreindum tölum sé einungis kominn forsmekkur þess sem koma skal í þessari kreppu,"  segir í Morgunkorni.

Körlum fækkar en konum fjölgar

Kreppan hefur komið illa niður á karllægum atvinnuvegum á borð við byggingariðnaðinn, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka. „Samdrátturinn þar hefur verið gríðarlegur á stuttum tíma og mikið um uppsagnir starfsmanna. Mikið af erlendu vinnuafli var flutt inn til að svara vaxandi vinnuaflseftirspurn þessara greina í uppsveiflu síðustu ára. Nú hefur það snúist við. Þannig hefur karlmönnum á aldursbilinu 15-64 ára fækkað um 985 frá áramótum eða um 0,9%. Á sama tíma hefur konum í sama aldurshópi fjölgað um 458 eða 0,4%. Í heild hefur karlmönnum fækkað um 910 í ár en konum hins vegar fjölgað um 448. Heildarfjöldi karla í landinu var 161.158 í upphafi október síðastliðinn en konur voru á sama tíma 157.748 talsins."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert