Nýr formaður matvælasviðs

Kristján Gunnarsson, var endurkjörinn formaður Starfsgreinasambandsins.
Kristján Gunnarsson, var endurkjörinn formaður Starfsgreinasambandsins. mbl.is

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bárunnar á Selfossi, var kosin formaður matvælasviðs Starfsgreinasambandsins. Aðalsteinn Árni Baldursson, fráfarandi formaður, gagnrýnir harðlega forystu sambandsins, en uppstillingarnefnd gerði ekki tillögu um Aðalstein þó að hann væri tilbúinn til að gegna formennsku áfram.

Aðalsteinn hefur verið formaður matvælasviðs Starfsgreinasambandsins í u.þ.b. 10 ár. Hann sagði í samtali við mbl.is að búið væri að vinna gegn sér frá því í sumar. Trúnaðarbrestur hefði orðið milli sín og nokkurra af forystumönnum Starfsgreinasambandsins. Eftir að hann hefði fengið skilaboð um að sér yrði ekki stillt upp sem formaður matvælasviðs hefði hann ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri.

„Ég hef ekki áhuga á að vinna með þessum mönnum," sagði Aðalsteinn.  „Á bak við þessa ákvörðun liggur mismunandi sýn í kjaramálum, en ekki að ég hafi ekki verið að vinna vinnuna mína," sagði Aðalsteinn.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, fór í ræðustól á þinginu og gagnrýndi harðleg ákvörðun kjörnefndar að stilla Aðalsteini ekki upp og óskaði eftir skýringum á henni. Formaður kjörnefndar sagði að ekki væri venjan að kjörnefnd rökstyddi tillögur sínar.

Kristján Gunnarsson var endurkjörinn formaður Starfsgreinasambandsins og Björn Snæbjörnsson var endurkjörinn varaformaður.

Þing Starfsgreinasambandsins samþykkti ályktun um málefni heimilanna. Í henni er m.a. fjallað um afkomu heimilanna í kjölfar efnahagshrunsins. Jafnframt eru skerðingar á kjörum aldraðra og öryrkja harmaðar. Í ályktuninni er lögð sérstök áhersla á málefni barna og ungmenna og nauðsyn þess að tryggja jafnan aðgang að íþrótta- og tómstundastarfi og gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert