Ólafur Ragnar varar við annarri stórkreppu

„Þeir störfuðu ekki á afbrigðilegan hátt, að líkindum, innan þessa …
„Þeir störfuðu ekki á afbrigðilegan hátt, að líkindum, innan þessa regluverks. En þetta sýndi fram á að evrópskur, sameiginlegur evrópskur fjármálamarkaður kallar á evrópskt regluverk,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson i viðtali við bandaríska viðskiptatímaritið Forbes. Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, minnir á að fyrir nokkrum áratugum hafi Ísland verið þróunarland í aðsendri grein í bandaríska viðskiptatímaritinu Forbes. Ólafur Ragnar segir íslensku bankana hafa starfað innan evrópska regluverksins en hann varar jafnframt við annarri stórkreppu.

„Þeir störfuðu ekki á afbrigðilegan hátt, að líkindum, innan þessa regluverks. En þetta sýndi fram á að evrópskur, sameiginlegur evrópskur fjármálamarkaður kallar á evrópskt regluverk,“ segir Ólafur Ragnar, sem telur að annað hvort þurfi að endurskoða núverandi eftirlitsstofnanir eða skapa nýjar svo stuðla megi að jafnvægi á milli markaðsaflanna og regluverksins.

Hann óttast að í Bandaríkjunum og Evrópu færist leiðtogarnir smátt og smátt í átt frá því verkefni að uppfæra regluverkið. Ef svo fari muni önnur stórkreppa líta dagsins ljós á næstu 10, 15 til 20 árum.

Útflutningnum að þakka 

Ólafur Ragnar gerir lesendum tímaritsins grein fyrir þeirri skoðun sinni að það sé útflutningi að þakka að íslensku þjóðinni hafa gengið betur að glíma við kreppuna á síðustu sjö til níu mánuðum en óttast var.    

„Þegar ég var barn var Ísland á meðal fátækustu ríkja Evrópu [...] Fólk hefur tilhneigingu til að gleyma því að við vorum í raun mjög fátæk þjóð fiskimanna [...] við vorum fiskimenn og bændur í mörg árhundruð [...] Í þorpinu sem ég ólst upp í þurfti fólk að verja tveimur til þremur mánuðum á haustin til að tryggja mat fyrir veturinn með margvíslegum hætti, eins og gerist í þróunarríkjum,“ sagði rakarasonurinn frá Ísafirði með auðmýkt um uppruna sinn.

Eins og svo oft áður rakti Ólafur Ragnar hvernig Íslendingar hefðu brotist frá fátækt til bjargálna með virkjun hreinnar, endurnýjanlegrar orku sem hann hefði persónulega kynnt erlendis.

Útlendingar sýna íslenskum orkulindum áhuga

Hann bendir í framhaldinu á þá þversögn að á meðan Íslendingar glími við bankahrun sýni fjöldi erlendra fyrirtækja áhuga á að komast í íslenskar orkulindir.

Hann ályktar svo um bankahrunið:

„Ég hygg að vöxtur bankageirans hafi að mörgu leyti verið of hraður og mikill. Og við veittum regluverkinu ekki næga athygli [...] Að því leyti vorum við, ef til vill, fórnarlömb almennrar bókstafstrúar markaðarins, sem virtist boða að þeim mun meira sem einkavætt var og þeim mun meira sem flett var ofan af regluverkinu þeim mun meiri yrði árangurinn á öllum sviðum.“

Þá heggur Ólafur Ragnar í sama knérunn og í fyrri viðtölum þegar hann minnir á að þrátt fyrir að íslenska bankakerfið hafi bundist því evrópska traustum böndum hafi ekki dugað að treysta á innlendar stofnanir, enda hafi umsvif bankanna legið svo miklu víðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka