Óveðri slotar um hádegi

Óveður er á sunnanverðu landinu.
Óveður er á sunnanverðu landinu. mbl.is/Þorkell

Óveðrinu á Suðurlandi á að taka að slota um eða eftir hádegið. Þá fer að hvessa á norðanverðu landinu. Veðrið er nú langverst í Vestmannaeyjum, undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum, að sögn Þorsteins V. Jónssonar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Jafnvindur mældist allt að 43 m/s á Stórhöfða og á Steinum undir Eyjafjöllum 30 m/s en þar fara hviður í 42 m/s. Einnig hefur verið slæmt á Kjalarnesi þar sem hviður hafa náð 50 m/s vindhraða. Veðrið er því verst nú við Suðurströndina og við Faxaflóa.

Óveðrið mun færast norður yfir landið og má búast við illviðri fyrir norðan í kvöld og eitthvað framyfir hádegi á morgun. Þorsteinn sagði að á fjallvegum gæti orðið skafrenningur og snjókoma, en líklega ekki í byggð. 

Búist er við að jafnvindur verði ekki jafn sterkur fyrir norðan og hann hefur verið á Suðurlandi í morgun, en hviðurnar geta orðið alveg jafn slæmar. Einnig getur orðið mjög hvasst á fjallvegum og á heiðum. 

Almannavarnir vilja hvetja fólk til að huga að aðstæðum áður en lagt er af stað í ferðalög. Í frétt frá Almannavörnum segir að samkvæmt Veðurstofunni og Vegagerðinni hafiverið mjög hvasst og hviðótt nú í morgun, í Mýrdalnum, undir Eyjafjöllum, undir Hafnarfjalli, á Reykjanesbraut, á Sandskeiði og Kjalarnesi.

„Samkvæmt mælingum Veðurstofu hefur vindur farið í 50 m/sek í hviðum á Kjalarnesi. Á ofangreindum svæðum er afleitt ferðaveður. Björgunarsveitir eru að störfum víða á sunnan og vestanverðu landinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert