Kurr er meðal Íslendinga í Danmörku vegna þeirra áforma að leggja niður embætti sendiráðsprests í Kaupmannahöfn. „Við erum að vonum slegin yfir þessu,“ segir sr. Þórir Jökull Þorsteinsson, sem gegnir embættinu.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu sl. sunnudag þarf Þjóðkirkjan að skera niður alls 160 milljónir króna á næsta ári. Rætt er um að slá verkefnum á frest og sameina eða leggja niður embætti, þar á meðal embætti sendiráðspresta í Kaupamannahöfn og Lundúnum.
„Veikt gengi íslensku krónunnar ræður mestu um niðurskurðaráformin,“ segir Þórir Jökull sem þykir sárt að prestsembættið í Kaupmannahöfn verði lagt af, enda eigi það sér 45 ára sögu. Á þeim tíma hafi þær þúsundir Íslendinga sem búa í Danmörku vanist því að geta sótt íslenskar guðsþjónustur og fengið aðra prestsþjónustu í sorg og gleði.