Sérstök undanþága fyrir Ísland ekki í boði

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir.

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa gert athugasemd við ummæli Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, í utandagskrárumræðum á Alþingi í fyrradag. 

Vigdís setti þar út á ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, um að sækja ekki um undanþágur frá Kyoto-bókuninni. Sagði Vigdís að þar með því að gera það afsali umhverfisráðherra sér, fyrir hönd þjóðarinnar fimmtán milljarða króna verðmætum. 

Í athugasemd NSÍ er hinsvegar bent á að frá og með árinu 2013 muni losun gróðurhúsalofttegunda vegna álframleiðslu falla undir tilskipun ESB um viðskipti með gróðurhúsalofttegundir. Sérstök undanþága fyrir Ísland verði því ekki í boði á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. „Þingmenn ættu því að kynna sér málavöxtu áður en þeir hlaupa í fjölmiðla með staflausa stafi líkt og Vigdís Hauksdóttir gerði,“ segir NSÍ.

Þá hefur Umhverfisráðuneytið einnig gert athugasemd við ummæli Vigdísar.  „Ísland er þegar aðili að viðskiptakerfi ESB og frá og með 1. janúar 2013 mun nærri helmingur losunar Íslands falla undir það samkvæmt ákvæðum EES-samningsins, þar á meðal öll losun frá stóriðju,“ segir í athugasemd ráðuneytisins.

„ Það liggur því fyrir að stóriðja á Íslandi á að búa við sömu skilyrði og stóriðja annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Það þýðir að færa verður losunarheimildir íslenskra stóriðjufyrirtækja úr undanþáguákvæði í Kýótó-bókuninni yfir í evrópska viðskiptakerfið, en ekki að Kýótó-heimildir Íslands falli niður. Ísland á nú í viðræðum við ESB um tæknilega útfærslu á þessum flutningi. Fullyrðingar um að umhverfisráðherra afþakki 15 milljarða króna loftslagskvóta eru því fráleitar og algerlega úr lausu lofti gripnar.

Flutningur losunarheimilda íslenskra stóriðjufyrirtækja úr núverandi undanþáguákvæði yfir í evrópska viðskiptakerfið mun ekki hafa neinn kostnað í för með sér. Niðurfelling íslenska ákvæðisins samhliða niðurstöðu um flutning heimilda mun hins vegar opna ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki, sem gætu þá óhindrað tekið þátt í viðskiptakerfi ESB, þar sem loftslagsvæn fyrirtæki standa betur að vígi en hin. Ákvörðun 14/CP.7 (íslenska ákvæðið) kemur hins vegar í veg fyrir að Ísland geti selt losunarheimildir. Þannig er um mikilvægt framfaraskref að ræða fyrir ímynd Íslands, íslenskt atvinnulíf og stöðu umhverfismála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert