SI: Markvisst unnið gegn áliðnaði

Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins
Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

 Ekki verður annað séð en að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að vinna markvisst gegn áliðnaði og öðrum orkufrekum iðnaði á Íslandi í bráð og lengd. Ákvarðanir um framlengja ekki viljayfirlýsingu vegna Bakka, fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um Suðvesturlínur og tillaga um orku- og auðlindaskatt koma fyrirhuguðum framkvæmdum í uppnám segir Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, á vef samtakanna.

Hann segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að framlengja ekki viljayfirlýsinguna vegna Bakka setja uppbyggingu á norðausturlandi í óvænt uppnám. Þá setur ákvörðun umhverfisráðherra frá 29. september um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um Suðvesturlínur verulegt strik í reikninginn vegna álvers Norðuráls í Helguvík og annarra framkvæmda á Suðurnesjum s.s. uppbyggingu gagnavers segir Jón Steindór.

„Líkur benda raunar til að ákvörðun ráðherra standist ekki lög og er því með öllu óskiljanleg.“ Síðast en ekki síst er það vanhugsuð og illa undirbúin tillaga sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um orku- og auðlindaskatta. Augljóst er að hitann og þungann af þeirri skattheimtu er þeim stóriðjufyrirtækjum sem hér starfa ætlað að bera. Öll hafa þau hafið starfsemi hér á landi samkvæmt sérstökum samningum og lögum. Öll hafa þau lýst yfir áformum um frekari uppbyggingu hér á landi. Við þörfnumst erlendra fjárfestinga og okkur er líka nauðsynlegt að skapa Íslandi orðspor sem ríkis þar sem óhætt er að byggja upp starfsemi til langs tíma. Hér þurfi fjárfestar ekki að eiga á hættu að leikreglum sé breytt eftir á eins og ríkisstjórnin boðar núna," að því er fram kemur á vef SI.

Sjá nánar á vef Samtaka iðnaðarins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert