Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, sagði á þingi Starfsgreinasambandsins, sem nú stendur yfir á Selfossi, að Ísland yrði að hafa aðgang að lánsfjármagni. Það væri forsenda þess að hægt væri að ráðast í fjárfestingar og byggja upp betri lífskjör.
Ólafur Darri sagði að í dag væri aðgengi að lánum erlendis mjög takmarkað. Margir hefðu brennt sig illa á að lána til Íslands. Það mætti hins vegar spyrja hvers vegna við þyrftum erlend lán? Væri ekki vandi okkar sá að við tókum of mikið af lánum? Það væri vissulega rétt en við þyrftum lán til að fjárfestinga til að byggja upp frekari verðmætasköpun og eins til að endurfjármagna mikið af skuldunum okkar.
Ólafur Darri sagði að það væri auðvitað ömurlegt að þurfa að borga
skuldir óreiðumanna eins og Icesave-skuldirnar. En það kæmi til með að
kosta þjóðina meira ef hún einangraðist. Kostnaðurinn fælist í glötuðum
tækifærum og í krónum og aurum sem ekki yrðu af tekjum vegna þess að
við gátum ekki fjárfest.
Ólafur Darri sagði erfiða tíma í ríkisfjármálunum. Við ættum mjög erfitt með að fjármagna vaxandi halla. Á næsta ári væri gert ráð fyrir að 100 milljarðar færu í vaxtagreiðslur. Það væri svipuð upphæð og verja ætti til heilbrigðismála.