Nokkrir bílar fóru út af í Þrengslunum í gærkvöldi og nótt. Mikið slabb og krapi var á veginum og flutu bílarnir upp og runnu rólega útaf, að sögn lögreglunnar á Selfossi. Lögregla og björgunarsveit drógu 4-5 bíla upp á veginn. Enginn slasaðist og bílarnir skemmdust ekki.
Útafaksturinn varð ekki vegna þess að bílarnir væru illa búnir, að sögn lögreglu, heldur var krapið svo mikið að þeir flutu upp. Bæði var um að ræða fjórhjóladrifna bíla og bíla á vetrardekkjum. Þetta ástand skapaðist upp úr kl. 23.00 í gærkvöldi og var verið að aðstoða bíla fram undir kl. 3 í nótt.
Búist var við að færðin yrði betri þegar leiðin yrði rudd.