„Við erum í ömurlegri stöðu"

Framkvæmdastjóri SA segir framkvæmdir einu raunhæfu leiðina út úr kreppunni.
Framkvæmdastjóri SA segir framkvæmdir einu raunhæfu leiðina út úr kreppunni. Golli /Kjartan Þorbjörnsson

„Ég skil Gylfa mjög vel. Við erum í ömurlegri stöðu," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um þá hótun Gylfa Arnbjörnssonar, formanns ASÍ, að látið verði sverfa til stáls gangi kjarasamningar ekki eftir.  

„Við kunnum vel að meta hvað verkalýðshreyfingin hefur nálgast okkar samskipti af mikilli ábyrgð í sameiginlegri vinnu okkar við að komast út úr kreppunni. Það sem við höfum verið að upplifa núna er stórkostlegur vandræðagangur við að koma fjárfestingum af stað," segir Vilhjálmur, en hann telur „blasa við" að fyrirtæki muni ekki geta staðið undir kjarasamningum gangi stöðugleikasáttmáli ekki eftir.

„Við berum líka mikla virðingu fyrir því fólki sem er á lágum launum og hefur frestað sínum launahækkunum, þrátt fyrir að margt af því gæti eflaust haft betur upp úr sér með því að vera ýmist atvinnulaust eða á annars konar bótum. Það er sannarlega það síðasta sem okkur langar til að gera að rjúfa friðinn á milli okkar.

Meginviðfangsefni stöðugleikasáttmálans var að koma fjárfestingum í atvinnulífinu og ýmsum opinberum fjárfestingarverkefnum í gang. Þetta átti við flaggskipin í fjárfestingum atvinnulífsins, álverin og orkuframleiðsluna.

Þetta átti við ýmsar aðrar fjárfestingar í atvinnulífinu sem hafa verið til umræðu og á teikniborðinu og menn hafa verið að vinna að. Þetta átti líka við ýmis stórverkefni eins og Landspítalann og samgönguframkvæmdir, þar sem við höfum beitt okkur í sameiningu fyrir aðkomu lífeyrissjóða,“ segir Vilhjálmur og heldur áfram.

Fjárfesting eina raunhæfa leiðin

„Við erum líka að tala um lækkun vaxta þannig að fyrirtæki almennt fari að sjá sér hag í að fjárfesta á nýjan leik. Við sjáum fjárfestingarnar sem einu raunhæfu leiðina til þess að koma okkur út úr kreppunni á næsta ári. Það sem við höfum verið að upplifa núna er stórkostlegur vandræðagangur við að koma þessum fjárfestingum af stað og við horfum fram á áframhaldandi kreppu á næsta ári, aukið atvinnuleysi og meiri erfiðleika fyrirtækja.“

– Ertu að segja að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar valdi því að þið munið ekki geta staðið við þetta?

„Það er það sem blasir við á þessum tímapunkti."

Bíða eftir fjárfestingum

– Hvað blasir við?

„Það blasir við að lykilþættirnir í því að koma fjárfestingum í gang eru ekki að ganga upp. Það er okkar viðfangsefni næstu tvær vikurnar að berjast fyrir því að stöðugleikasáttmálinn haldi. Þannig að við erum að berjast fyrir því. Við gerum ekkert annað."

– Hvernig meturðu líkurnar á því að það geti tekist?

„Þetta er viðfangsefni. Ég ætla ekki að gefast upp fyrr en fullreynt er. Við viljum sannarlega standa við samningana sem við höfum gert."

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert