Birtir bréf Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Ómar Óskarsson

Forsætisráðuneytið hefur birt bréf sem fóru á milli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Jens Stoltenbergs forsætisráðherra Noregs. Í bréfi Jóhönnu kemur fram að afstaða norsku ríkisstjórnarinnar sé vel kunn. Stoltenberg staðfestir að Íslendingar geti ekki vænst lánafyrirgreiðslu frá Noregi án skilyrða.

Í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins segir: „Vegna óska um birtingu á bréfaskiptum forsætisráðherra Íslands og Noregs Tilkynning Spurt um útspil Lundteigens Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sendi Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, bréf 5. október sl. , þegar stjórnarmyndarviðræður stóðu sem hæst þar í landi, til þess að kanna viðbrögð hans við útspili Per Olov Lundteigens, þingmanns norska Miðflokksins, um að Norðmenn ættu að bjóða Íslendingum lán að upphæð allt að 100 milljörðum norskra króna án skilyrða um samninga varðandi Icesave og endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Afstaða Norðmanna og annarra norrænna ríkja hefur legið fyrir en forsætisráðherra taldi nauðsynlegt að grennslast fyrir um það hvort útspil Lundteigens væri raunhæft og hvort einhverjar breytingar væru að verða á mótaðri stefnu norska Stórþingsins og norsku stjórnarinnar. Ef svo væri gæti verið kominn grundvöllur fyrir formlegri beiðni af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Jens Stoltenberg forsætisráðherra svaraði með bréfi 8. október og fylgja bréfin hér að neðan. Fyrst er bréf forsætisráðherra til Jens Stoltenbergs og síðan þýðing á svari norska forsætisráðherrans til Jóhönnu Sigurðardóttur. Í viðhengjum neðst í skjalinu eru bréfin á norsku.

Bréf Jóhönnu Sigurðardóttir til Jens Stoltenbergs frá 5. október síðastliðnum:

Kæri Jens

Ég endurtek hjartanlegar hamingjuóskir mínar með árangurinn í kosningunum en hér á Íslandi er ríkisstjórnin því miður að fást við fjölmörg erfið málefni.

Mér þykir miður að trufla með að nefna við þig mál sem hefur vakið talsvert mikla athygli á Íslandi, það er að segja yfirlýsingu Per Olav Lundteigens til alþingismanns íslenska Framsóknarflokksins, systurflokks Miðflokksins, um að Noregur sé reiðubúinn að lána Íslandi 100 milljarða norskra króna. Við gerum okkur vel ljóst að Lundteigen talar fyrir sig og afstaða norsku ríkisstjórnarinnar er okkur vel kunn. Það gildir hins vegar ekki um alla hér á landi og Framsóknarflokkurinn á Íslandi sakar okkur um að fylgja ekki eftir frumkvæði sínu.

Til þess að komast hjá frekari vafa, vil ég leyfa mér að spyrja hvort hægt sé að fá nánari skýringar á afstöðu norsku stjórnarinnar sem svari tillögu Lundteigens? Er útspil hans raunhæft? Mér þætti vænt um að fá svar frá þér við fyrsta tækifæri. Ég hlakka til norræna fundarins í lok þessa mánaðar.

Með kærri kveðju, Jóhanna

Þýðing á svari Jens Stoltenbergs til Jóhönnu Sigurðardóttur frá 8. október síðastliðnum:

Kæra Jóhanna, Bestu þakkir fyrir tölvupóstinn frá þér 5. október sl., þar sem þú spyrð m.a. um yfirlýsingar sem Per Olav Lundteigen, Stórþingsmaður, hefur gefið hinum íslenska Framsóknarflokki þess efnis að Noregur sé reiðubúinn til að lána Íslandi 100 milljarða norskra króna.

Okkur er hugleikið að aðstoða Ísland í erfiðri stöðu landsins, m.a. með veitingu langtímalána ásamt öðrum Norðurlöndum. Noregur hefur átt frumkvæði að tímanlegri og verulegri aðstoð við Ísland innan norræns ramma. Eins og þér er kunnugt er norska lánið að upphæð 480 milljónir evra (u.þ.b. 4,2 milljarðar norskra króna) af norrænu heildarláni sem nemur um 1,8 milljörðum evra. Það hefur hvorki í norsku eða norrænu samhengi verið rætt um að hækka þessar upphæðir.

Ríkisstjórn þín hefur gert mikið til að hreinsa upp eftir hina föllnu banka og í mótun stefnu um að ná efnahagslegum stöðugleika og endurreisn á Íslandi. Nú skiptir miklu að Ísland komi samskiptum við umheiminn í samt lag. Við styðjum ykkur í þessari viðleitni og vonum að stjórn AGS geti fljótlega samþykkt fyrstu endurskoðun stöðugleikaáætlunarinnar, þannig að næsta útborgun lánsins frá AGS og fyrsta útborgun af norrænu lánunum geti átt sér stað.

Þegar Noregur, ásamt Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, gáfu fyrirheit um lánveitingu í nóvember í fyrra, var það m.a. með því skilyrði að Ísland virti alþjóðlegar skuldbindingar, þ.m.t. varðandi innlánstryggingar, og að þau lönd sem hafa helst orðið fyrir vanefnum íslenska innlánstryggingasjóðsins veiti lán til að fjármagna þær skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld gangast við í þessu samhengi. Þessar forsendur lágu til grundvallar samþykki Noregsbanka fyrir láni til Seðlabanka Íslands og ákvörðun Stórþingsins um að veita ríkisábyrgð vegna lánsins.

Meðferð íslenskra skuldbindinga um innlánstryggingar gagnvart erlendum innistæðueigendum í bönkunum sem féllu skiptir mjög miklu fyrir styrkleika stöðugleikaáætlunarinnar.

Í þessu samhengi eru Icesave-samningarnir við Stóra-Bretland og Holland mikilvægir. Við leggjum þunga áherslu á norræna samstarfið. Það gagnast bæði Noregi og Íslandi að það eflist og að norska aðstoðin við Ísland gerist i slíkri samvinnu.

Ég hlakka til norræna fundarins í Stokkhólmi þar sem okkur gæti gefist tilefni til m.a. að fjalla betur um stöðu mála á Íslandi.

Með vinsamlegri kveðju Jens Stoltenberg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert