Búist er við flóðbylgju mála í kjölfar bankahrunsins en á sama tíma er héraðsdómstólunum gert að spara 50 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fyrirliggjandi fjárlögum, eða 5% að raungildi.
„Miðað við það gríðarlega álag sem er í uppsiglingu og er þegar farið að sjást er þetta algerlega ófullnægjandi. Í raun og veru þyrfti að stórauka fjárheimildir í þeirri stöðu sem dómstólarnir eru núna og þegar höfð er í huga fyrirsjáanleg flóðbylgja mála á næstu misserum,“ segir Helgi I. Jónsson, dómstjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur og starfandi formaður dómstólaráðs.
Fyrstu dómarnir vegna bankahrunsins hafa þegar verið kveðnir upp og mörg mál í farvatninu. Þá hafa Héraðsdómi Reykjavíkur borist á sjötta tug ágreiningsmála vegna gjaldþrota sem orðið hafa í kjölfar hrunsins.