Jóhanna kallaði eftir neikvæðum viðbrögðum

Frá miðborg Ósló. Hart er tekist á um mögulegt risalán …
Frá miðborg Ósló. Hart er tekist á um mögulegt risalán frá Noregi.

„Það er augljóst að þetta bréf kallar á neikvæð viðbrögð, sérstaklega þar sem hún fer með nokkrar rangfærslur,“ segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins um bréfaskipti Jóhönnu Sigurðardóttur og Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs. Væri Jóhönnu alvara í að biðja um lán hefði hún farið öðru vísi að.

Höskuldur segir a.m.k. þrennt vera beinlínis rangt fram sett í bréfi Jóhönnu. Í fyrsta lagi að Per Olav Lundteigens hafi einn lýst því yfir að lánavilji væri til staðar í Noregi, þegar raunin er sú að hann hafði stuðning flokksins á bak við sig. Í öðru lagi að Framsóknarflokkurinn hafi farið fram á 100 milljarða norskra króna, því áherslan hafi fyrst og fremst verið á að koma á lánalínu almennt og miklu lægri upphæð hafi verið rædd. Í þriðja lagi segir Höskuldur það rangt með farið hjá Jóhönnu að Framsóknarflokkurinn sé með ásakanir á hendur ríkisstjórn Íslands.

„Við höfum ekki ásakað ríkisstjórnina um eitt eða neitt, við höfum einfaldlega vilja benda á að þessi möguleiki sé til staðar. En þetta bréf kallar á neikvæð viðbrögð, ef að Jóhönnu væri alvara í að biðja um lán hefði hún óskað eftir því að fá jákvæð svör. Og það sem er athyglisverðast í þessu er að hann [Stoltenberg] útilokar  ekki lánveitingu óháð AGS,“ segir Höskuldur sem er enn þeirrar skoðunar að ríkisstjórn Íslands ætti að sækja formlega um lán til Noregs, það hafi ekki verið gert með þessu bréfi.

Hann segir Framsóknarflokkinn áfram munu vinna að því að sótt verði um lánið. „Svo sannarlega, afstaða okkur er algjörlega sú sama. Við eigum að athuga með öllum tiltækum ráðum hvort það sé önnur leið fær en í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann er að neyða okkur til að gera hluti sem stór hluti þjóðarinnar er á móti, auk þess sem við erum þeirrar skoðunar að hann sé að stórskaða velferðarkerfið með blóðugum niðurskurði.“

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. Bragi —r J—sefsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka