Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, segir ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um lagningu Suðvesturlínu, vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík, vera ólögmæta. Skipulagsstofnun hefur nú málið til umfjöllunar. Þetta kom fram í þættinum Á sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Helgi sagði ákvörðunina skaða mjög allan iðnað í landinu. Auk þess væru fyrirhugaðar skattahækkanir til þess fallnar að auka á óvissu iðnfyrirtækja. Svonefndir orkuskattar, sem eiga að skila ríkinu um 16 milljörðum samkvæmt fjárlagafrumvarpi, væru arfavitlausir og væru þegar farnir að skaða áætlanagerð og setja áform um orkufrekan iðnað í uppnám. Gagnrýndi hann Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra sérstaklega fyrir þessi áform.