15 þúsund skammtar á fimmtudag

Von er á bóluefninu frá GlaxoSmithKline á fimmtudag
Von er á bóluefninu frá GlaxoSmithKline á fimmtudag Reuters

Að ósk sóttvarnalæknis hefur verið flýtt innflutningi á fyrsta skammti af bóluefni  gegn  H1N1 veirunni, sem Íslendingar hafa tryggt sér aðgang að með samningi við lyfjaframleiðandann GlaxoSmithKline (GSK).  Gert er ráð fyrir að fyrsta sending af bóluefninu, um 15 þúsund skammtar, komi til landsins næst komandi fimmtudag 15. október.

Með samningi sem íslensk stjórnvöld gerðu við GSK árið 2007 voru Íslendingum tryggðir 300 þúsund skammtar af bóluefni gegn  heimsfaraldri inflúensu. Samningurinn felur í sér að Íslendingar fá ákveðið hlutfall af því bóluefni sem verksmiðjur GSK framleiða í viku hverri, að því er segir í tilkynningu. 

Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að framleiðsla á bóluefninu kæmist á góðan skrið í september og að fyrstu skammtarnir kæmu hingað til lands um miðjan október. Þar sem seinkun varð á framleiðsluferlinu hefur afgreiðsla á bóluefni  til þeirra landa sem voru með sambærilega samninga við GSK tafist um tvær vikur.  Fyrstu sendingar af bóluefni til þessara landa voru afgreiddar frá verksmiðjum GSK undir lok síðustu viku.

Miðað var við að í fyrstu sendingu af bóluefni til Íslands yrðu um 70 þúsund skammtar af bóluefni  en það samsvarar nokkurra vikna framleiðslu upp í samninginn við Íslendinga.  Að ósk sóttvarnalæknis hefur nú verið ákveðið að flýta fyrstu sendingu af bóluefninu þannig að fyrsti skammturinn verði kominn hingað til lands um miðja þessa viku.

„Íslendingar verða meðal fyrstu þjóða til að hefja bólusetningu gegn H1N1 veirunni þótt magnið sem við fáum í þessari fyrst sendingu verði ekki jafn mikið og menn höfðu gert ráð fyrir,“ segir Hjörleifur Þórarinsson framkvæmdastjóri GlaxoSmithKline á Íslandi, í fréttatilkynningu.   

Höfuðstöðvar GlaxoSmithKline í London.
Höfuðstöðvar GlaxoSmithKline í London. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka