70% vilja erlenda fjárfestingu

Mikill meirihluti fólks vill erlenda fjárfestingu hér.
Mikill meirihluti fólks vill erlenda fjárfestingu hér.

Erlend fjárfesting nýtur stuðnings 70% almennings, samkvæmt könnun sem unnin var fyrir Capacent Glacier. Þegar spurt var hvaðan fólk vildi fá erlenda fjárfesta nefndu flestir Norðurlönd (36,4%) þegar tiltekin svæði voru nefnd og Noreg (15,4%) og Bandaríkin (8,7%) þegar nefnd voru einstök lönd.

Jón Diðrik Jónsson, stjórnarformaður Capacent Glacier, sagði að fyrstu spurningarnar í könnuninni hafi verið almennar og opnar. Eftir því sem á könnunina leið urðu spurningarnar þrengri og afmarkaðri.

Fyrst var spurt hvort svarendur styddu erlendar fjárfestingar á Íslandi. Þá var spurt hvort það skipti máli hvaðan úr heiminum erlend fjárfesting kæmi. Þeir sem sögðu það skipta máli voru spurðir hvaðan þeir vildu fá erlenda fjárfestingu. Þar nefndu flestir svæði heimsins, t.d. Norðurlönd. Noregur og Bandaríkin voru þau lönd sem oftast voru nefnd. 

Ein af fylgdarspurningum sem fylgdu á eftir var um hvort fólk teldi norska fjárfestingu vera æskilega hér á landi.  Jón Diðrik sagði að hugur fólks til Norðmanna hafi verið sérstaklega kannaður í spurningavagninum, en það hafi ekki áhrif á afstöðu til þess hvaðan fólk vildi helst fá erlenda fjárfestingu. 

Heildarniðurstöður könnunarinnar verða birtar á ráðstefnu Invest in Iceland 21.október.

Tilgangur könnunarinnar var að kanna viðhorf Íslendinga til erlendra fjárfesta á Íslandi. Könnunin var gerð 23.-29. september 2009 og var netkönnun. Úrtakið var 1.229 manns af öllu landinu, 16 ára og eldri. Þeir voru valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Fjöldi svarenda var 756 eða 61,5%.

Jón Diðrik Jónsson.
Jón Diðrik Jónsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert