Atvinnuleysið 7,2%

mbl.is

Skráð atvinnuleysi í september 2009 var 7,2% eða að meðaltali 12.145 manns og minnkar atvinnuleysi um 9,3% að meðaltali frá ágúst eða um 1.242 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1,3%, eða 2.229 manns. Tæplega 54% þeirra hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur.

Mest atvinnuleysi á Suðurnesjum en minnst á Norðurlandi vestra

Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 12,1% en minnst á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra 1,8%.  Atvinnuleysi minnkaði á höfuðborgarsvæðinu um 11% en minnkar um 4,3% á landsbyggðinni.  Atvinnuleysi minnkar um 6,6% meðal karla en minnkar um 13% meðal kvenna.  Atvinnuleysið er 7,6% meðal karla og 6,7% meðal kvenna.

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði minnkar úr 7.457 í lok ágúst í 7.397 í lok september og eru þeir nú tæp 54% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá.  Þeir sem verið hafa atvinnulausir í meira en ár voru 1.024 í lok september en 779 í lok ágúst.

Atvinnulausum 16-24 ára hefur fækkað og voru 2.435 í lok september en 2.643 í lok ágúst eða um 18% allra atvinnulausra í september.

Alls voru 13.748 atvinnulausir í lok september.  Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 11.065, af þeim voru 1.084 í einhvers konar úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í viðtöl hjá ráðgjöfum stofnunarinnar og á kynningarfundi.

Fækkun atvinnulausra í lok september mánaðar frá lokum ágúst nam 623, en 196 færri karlar voru á skrá og  427 færri konur.  Á landsbyggðinni fjölgar um 81 en fækkar um 704 á höfuðborgarsvæðinu.

Flestir útlendinga á atvinnuleysisskrá frá Póllandi

Alls voru 1.717 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok september, þar af 1.102 Pólverjar eða um 65% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok september. Langflestir erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingariðnaði eða 638 (um 38% allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá).

Í septembermánuði bárust Vinnumálastofnun 4 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem 87 starfsmönnum var sagt upp.

Alls fengu 111 launamenn greitt úr Ábyrgðarsjóði launa í september, 124 í ágúst, 129 í júlí og 275 í júní. Flestir voru starfandi í mannvirkjagerð og iðnaði , 42.

Spá auknu atvinnuleysi í október

Yfirleitt versnar atvinnuástandið frá september til október.  Þróun síðustu vikna bendir til að svo verði einnig raunin í ár, en erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í október 2009 aukist og verði á bilinu 7,3%-7,8%.   Í fyrra var atvinnuleysið 1,9% í október.

Sjá nánar á vef Vinnumálastofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert