Búast má við útbreiddum faraldri

Von er á fyrsta skammtinum af bóluefni síðar í vikunni
Von er á fyrsta skammtinum af bóluefni síðar í vikunni

Undanfarnar tvær vikur hefur inflúensulíkum sjúkdómstilfellum fjölgað talsvert hérlendis, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Hátt hlutfall sýna frá þessum sjúklingum greinist með inflúensu A(H1N1)v á veirufræðideild Landspítalans sem bendir til þess að flest tilfellin séu af völdum inflúensunnar. Því má búast við útbreiddum faraldri á næstunni, að því er segir í tilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild.

Bent á að nota meira af veirulyfjum

Undanfarna daga hefur fjölgað þeim sjúklingum sem lagðir eru inn á sjúkrahús vegna inflúensu og nokkrir hafa verið lagðir á gjörgæsludeild. Það þarf samt ekki að þýða að faraldurinn sé að verða skæðari en áður heldur er sú skýring allt eins líkleg að eftir því sem fleiri smitast fjölgi þeim sem þurfa á sjúkrahúsvist að halda vegna undirliggjandi sjúkdóma sem geta gert inflúensuna alvarlegri en ella.

Sóttvarnalæknir hefur í tilkynningu til sóttvarnalækna um allt land bent á að ástæða sé til þess að nota meira en áður af veirulyfjum til meðferðar sjúklinga sem eru í hættu á að fá alvarlega sýkingu og draga þannig úr líkum á alvarlegum afleiðingum faraldursins.

Því er hvatt er til þess að allir, sem eru haldnir lungnasjúkdómum, hjarta- og æðasjúkdómum, efnaskiptasjúkdómum, svo sem sykursýki, ofþyngd, skertu ónæmiskerfi og skertri lifrar- og nýrnastarfsemi, hafi samband við heilsugæsluna ef þeir veikjast með inflúensulík einkenni. Þunguðum konum, sem veikjast með inflúensulík einkenni, er einnig ráðlagt að hafa samband við heilsugæsluna.

Bóluefni væntanlegt síðar í vikunni

Reynt verður að flýta fyrir því að bóluefni berist hingað til lands og er von á fyrstu sendingunni síðar í þessari viku. Áætlað er að fyrsta bóluefnið verði einkum notað til að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Í framhaldi af því verða einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma bólusettir.

Tilkynnt verður nánar á næstu dögum um hvernig staðið verði að bólusetningunni. Engin ástæða er til þess að breyta almennum sóttvarnarráðstöfunum hér á landi. Enn sem fyrr er hvatt til þess að þeir, sem veikjast með inflúensulík einkenni, haldi sig heima í allt að viku frá upphafi einkenna eða þar til þeir hafi verið einkennalausir (hitalausir) í tvo daga.

Mikilvægt er að þeir, sem sýktir eru, haldi fyrir vit sér með bréfklút eða öðru til að hindra dreifingu úða frá hnerra eða hósta. Jafnframt er mikilvægt að þvo hendur reglulega og nota handspritt, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka