Lítil bjartsýni í umfjöllun um Ísland

Það er lítil bjartsýni í grein Bloomberg þar sem farið …
Það er lítil bjartsýni í grein Bloomberg þar sem farið er yfir stöðu mála Íslandi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Atvinnuleysi, gríðarlega djúp efnahagslægð, hlutabréfamarkaður sem hefur fallið um 97% og fjöldi fyrirtækja á í erfiðleikum vegna fall krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Það er ekki bjartsýni sem ríkir í grein sem Bloomberg fréttaveitan birtir í dag um ástandið á Íslandi.

Allar forsendur fjölskyldunnar breyttar

Rætt er við Árna Hallgrímsson í greininni en Árni er í atvinnuleit. Hann starfaði áður við almannatengsl en hefur unnið við hvalstöðina  í sumar. Nú er hann hins vegar atvinnulaus á ný. Hann lýsir í greininni þeim martröðum sem hann upplifir en Árni er þriggja barna faðir á sextugsaldri. Hann hafi sótt um fjölmörg störf og í einhver skipti hafi hann komist áfram en aldrei fengið neitt af þeim störfum þegar til kastanna kemur.

Allar forsendur fjölskyldunnar hafi breyst en fyrir hrunið hafi þau greitt aukalega af höfuðstól lána sinna. Nú sé það orðið spurning hvort hægt sé að veita börnunum þann munað að taka þátt í tómstundastarfi.

Fjallað er um tafirnar sem orðið hafa á afgreiðslu á öðrum hluta láns Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og um leið á lánum frá öðrum ríkjum sem einnig ætluðu að lána Íslandi.

Telja að lítið hafi gerst

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, segir að þrátt fyrir að eitt ár sé liðið frá hruninu hafi lítið gerst. Hann segir samtökin telja að þjóðin sé ekki að gera nóg til þess að láta hjól atvinnulífsins snúast á ný.

Ástandið að batna víðast nema á Íslandi

Samdrátturinn á Íslandi verður um 8,5% í ár og verðbólga verður um 11,7%. Samkvæmt nýrri skýrslu AGS er þetta það versta meðal þeirra 33 ríkja sem teljast vera með þróað hagkerfi. Á sama tíma og ástandið virðist vera að batna annars staðar í heiminum þá verður ástandið væntanlega enn verra á Íslandi á næsta ári.

Sú atvinnugrein sem hefur farið einna verst út úr hruninu á Íslandi er byggingaiðnaðurinn, að því er fram kemur í grein Bloomberg. Þar segir að 202 byggingafyrirtæki hafi farið fram á gjaldþrotaskipti frá því í október í fyrra þar til í lok ágúst. Er það 67% aukning á milli ára.

Að sögn Árna Hallgrímssonar, en hann starfaði meðal annars fyrir byggingafyrirtæki þegar hann var í almannatengslum, gerðust hlutirnir hratt. Fyrirtækin gátu ekki tryggt fjármagn og hættu því fljótlega öllu markaðsstarfi. Allt í einu var ekkert fyrirtæki í byggingaiðnaði meðal viðskiptavina almannatengslafyrirtækisins sem hann starfaði fyrir.

Samkvæmt Bloomberg eru bankarnir þrír, sem allir eru í ríkiseigu í dag, að reyna að afla sér trausts hjá útlenskum fjármálastofnunum en ekki hafi enn tekist að afla lánsloforða erlendis frá. Enginn bankastjóranna segist hafa hug á útrás. Haft er eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að bankinn sé nýfarinn að kynna sig erlendis en allt alþjóðlegt starf verði vel ígrundað.

Enginn gjaldmiðill hefur fallið jafn mikið og krónan

Krónan hefur veikst um 53% gagnvart Bandaríkjadal frá því í byrjun nóvember 2007 og hefur enginn gjaldmiðill sem Bloomberg fylgist með, alls 175 gjaldmiðlar, veikst jafn mikið.

Enginn hlutabréfavísitala hefur lækkað jafn mikið í heiminum og sú íslenska. Skráðum félögum hefur fækkað úr 22 í 10.

Hvergi í Evrópu eru stýrivextir jafn háir og á Íslandi. Ef litið er til þeirra 58 seðlabanka heims sem Bloomberg er með á skrá hjá sér þá eru stýrivextir hærri í Pakistan og Líbanon en þar eru þeir 13%.

Staðan er mjög erfið hjá mörgum íslenskum fyrirtækjum sem reiða sig á innflutning. Að sögn Boga Þórs Siguroddssonar, eiganda Johan Rönning, hefur sölutekjur hafi dregist talsvert saman. Það eina sem selst er  matur, lyf og bensín.

Í grein Bloomberg er fjallað um að einhverjir sem voru áberandi fyrir hrun séu komnir fram á sjónarsviðið á ný og greint frá ráðningu Davíðs Oddssonar í stól ritstjóra Morgunblaðsins og uppsagnir á starfsmönnum hjá blaðinu á sama tíma.

Fjallað er um störf sérstaks saksóknara, fjármálaeftirlitsins og rannsóknarnefndar Alþingis sem muni skila af sér skýrslu í byrjun nóvember.

Þrátt fyrir að enginn hafi verið sóttur til saka þá sé almenningur byrjaður að refsa þeim sem hann telur að beri ábyrgð. Bloomberg nefnir þar skemmdarverk sem hafi verið unnin á eignum fyrrum útrásarvíkinganna.  

Í greininni er farið yfir stöðu Baugs og að það sé niðurstaða bússtjóra þrotabús Baugs, Erlendar Gíslasonar að lítið sé til í búinu til að greiða kröfur þeirra 158 sem hafa gert kröfu í búið. Blaðamaður Bloomberg tekur fram að reynt hafi verið að fá viðtal við Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum forstjóra Baugs, án árangurs.

Fjallar Bloomberg um þau fyrirtæki sem ríkisbankarnir hafa tekið yfir, þar á meðal bílasölu Heklu sem er í eigu Nýja Kaupþings. Haft er eftir Brynjari Óskarssyni starfsmanni hjá Heklu að það sé ekkert að gera í sölu á nýjum bílum á Íslandi og hann eigi ekki von á breytingum þar að lútandi á næstunni.

Bjart yfir sjávarútvegi og ferðamannaiðnaðinum

En ekki er svartnætti yfir öllu atvinnulífi á Íslandi, að sögn Bloomberg. Þar kemur fram að sjávarútvegur og ferðamannaiðnaður standi ágætlega enda fái þau fyrirtæki greidd í erlendri mynt. 

Meðal annars starfi 650 manns hjá HB Granda og fyrirtækið hafi ekki þurft að segja neinum upp heldur hafi starfsmönnum fjölgað. 

Eins hafi ferðamönnum fjölgað og segir Einar Bollason hjá Íshestum að yfirstandandi ár hafi verið það besta í rekstri félagsins frá upphafi.

Grein Bloomberg í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert