Melgresið stóðst óveðrið

Sáningin á Bakkafjöru er þegar farin að skila árangri við …
Sáningin á Bakkafjöru er þegar farin að skila árangri við að hefta sandfok. Landgræðsla ríkisins

Landgræðslusvæðið við Bakkafjöru stóð óveðrið á föstudaginn var af sér, að sögn Sveins Runólfssonar landgræðslustjóra. „Það fór betur en á horfðist. Íslenska melgresið er ótrúleg jurt og hún þoldi þetta ofsaveður,“ sagði Sveinn.

Einhver sandur fauk ofan á sáningar í ofsaveðrinu en melgresið mun vaxa upp úr því næsta vor, að sögn Sveins. Gróðurinn rifnaði hvergi upp svo heitið gæti af þeim sáningum sem sáð var vegna framkvæmdanna við Landeyjahöfn.

„Það sem búið er að gera þarna lofar afskaplega góðu,“ sagði Sveinn. „Það hefði ekki verið hægt að binda þennan sand með nokkurri annarri tegund heldur en melgresinu okkar.“

Sveinn sagði að ofsaveður hafi geisað niður í fjörunni þar sem uppgræðslan er. Veðrið hafi verið mun skárra innar í landinu. Ekki urðu teljandi skemmdir á uppgræðslu annars staðar í óveðrinu og ekki vitað um gróðurskaða. Rigning á láglendi og snjór á hálendinu hjálpuðu við að verja gróður. 

Næsta sumar verður meira sáð á Bakkafjöru til að ljúka varnarbeltunum sem eru nauðsynleg til að verja umferð til og frá Landeyjahöfn gegn sandfoki. Svæðið sem á að verja er um 1.000  hektarar og verður sáð í 600 - 700 hektara. 

„Þetta eru mjög erfiðar aðstæður. Þetta er það mikil sandeyðimörk,“ sagði Sveinn. „Þetta hefði ekki verið hægt nema með melgresinu. Árangur af þessu uppgræðslustarfi er forsenda tilvistar hafnarinnar. Ef ekki hefði tekist að stöðva sandfokið hefði verið tilgangslaust að hafa höfn þarna.“

Aðstæður eru mjög erfiðar og sandeyðimörkin stór sem sáð var …
Aðstæður eru mjög erfiðar og sandeyðimörkin stór sem sáð var í, að sögn landgræðslustjóra. Landgræðsla ríkisins
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert