Sigurjón: Ekki ríkisábyrgð á Icesave

Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans
Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans mbl.is/Jim Smart

„Ég tel ekki að það sé ríkisábyrgð á Icesave enda þyrfti ekki að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave innistæðurnar nú ef hún hefði verið fyrir. Enda held ég að fæstir hafi gert ráð fyrir að svo væri. Ríkisábyrgð er augljóslega stórt mál og það er augljóst í mínum huga að  ríkisábyrgð verður ekki til nema með samþykki Alþingis.  Það lá alls ekki fyrir þegar innlánssöfnun Landsbankans hófst." Þetta kemur fram í svari Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans við fyrirspurn Sölva Tryggvasonar, fréttamanns. 

Svar Sigurjóns er birt í heild sinni á bloggi Sölva á Pressunni.

Sigurjón segir að enginn sem les lög og reglur um Tryggingasjóð innistæðueiganda geti komist að þeirri niðurstöðu að það sé ríkisábyrgð á sjóðnum. „Auk þess sem ég held að það myndi ekki standast samkeppnisreglur EB ef það væri ríkisábyrgð á þessum sjóðum . Þá er augljóslega ekki sama frá hvaða landi banki býður þjónustu sína. Styrkur ríkisins á bak við hann skiptir þá öllu máli en ekki bankinn og það er í andstöðu við reglur um jafna samkeppnisstöðu.

Ákvæði um ríkisábyrgð geta aldrei verið  óljós. Annað hvort er skýr ríkisábyrgð á skuldbindingunum eða ekki," segir Sigurjón í svari við spurningu Sölva um hvort hann telji að það sé ríkisábyrgð á Icesave.

Svar Sigurjóns í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert