Skýlaus krafa að Baldur sigli daglega

Ferjan Baldur
Ferjan Baldur Af vef Sæferða

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga og fastanefnd sambandsins um samgöngumál skora á yfirvöld samgöngumála að tryggja áframhaldandi daglegar ferjusiglinar yfir Breiðafjörð, milli Stykkishólms og Brjánslækjar.

Í ályktun frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga segir að Baldur hafi gegnt lykilhlutverki í því að tryggja heilsárs samgöngu við sunnanverða Vestfirði í áratugi. Ætlun samgönguyfirvalda hafi verið að draga úr stuðningi við siglingar ferjunnar þegar lyki framkvæmdum á Vestfjarðavegi 60, milli Flókalundar og Bjarkalundar. Framkvæmdum á Vestfjarðavegi 60 hafi hinsvegar verið frestað  margsinnis, nú síðast vegna efnahagsástandsins, þar sem innistæður á vegaáætlun voru afskrifaðar vegna hrunsins.

„Horft var fram til að uppbygging Vestfjarðarvegar yrði að mestu lokið um áramótin 2010-2011, ljóst er að því markmiði verður langt í frá náð. Þá er einnig til skoðunar skerðing á vetrarþjónustu á Vestfjarðarvegi 60,“ segir í ályktuninni.

„Því má öllum ljóst vera að daglegar ferðir Ferjunnar Baldurs eru  samfélaginu á sunnanverðum Vestfjörðum lífsnauðsynlegar og samkeppnisstaða svæðisins verður stórlega skekkt gagnvart öðrum landshlutum. Má í því samhengi nefna, að fiskútflutningsfyrirtæki hafa á síðustu árum byggt upp verðmæt viðskiptasambönd sem nú er hætta á að fari forgörðum ef daglegar ferjusiglingar verða ekki tryggðar. Hefði slíkt bein áhrif til hins verra, á íbúaþróun og aðra atvinnustarfsemi. Þá gegnir Ferjan Baldur einnig lykilhlutverki í samöngum vegna reksturs framhaldsdeildar á Patreksfirði undir stjórn Framhaldsskóla Snæfellinga í Grundarfirði.

Það er því skýlaus krafa stjórnar og samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga, að daglegar ferjusiglingar yfir Breiðafjörð verði tryggðar a.m.k. til næstu tveggja ára og Vegagerðinni verði falið að ganga til samninga þar um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert