Sýknuð af ákæru fyrir rangar sakargiftir

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað konu af ákæru fyrir rangar sakargiftir með því að hafa með röngum framburði, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, leitast við að koma því til leiðar að fjórir menn yrðu sakaðir um kynferðisbrot gegn henni.

Konan bar í nóvember á síðasta ári, að fjórir karlmenn hefðu nauðgað henni í húsi í Reykjavík. Konan reyndist vera undir áhrifum bæði áfengis og amfetamíns. Raunar var amfetamínmagn í blóði hennar yfir eitrunarmörkum.

Mennirnir fjórir voru handteknir og úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald en eftir tvo daga var þeim sleppt og tilkynnti lögregla þeim nokkru síðar að rannsókn málsins hefði verið hætt. Var það m.a. vegna þess að mynd- hljóðupptökur komu í ljós í farsímum sem bentu til þess að konan hefði viljug tekið þátt í kynferðisathöfnum með mönnunum. 

Mennirnir báru fyrir dómi að konan hefðu átt kynferðismök við þrjá þeirra af fúsum og frjálsum vilja. Konan hélt hins vegar jafnan því gagnstæða fram. Segir í niðurstöðu héraðsdóms, að konan hafi verið staðföst í framburði sínum um þessi atvik og  framburður hennar sé trúverðugur hvað það varðar.

Hins vegar hafi konan borið að hún muni ekki eftir öllu sem gerðist og hafi minni hennar farið að bresta eftir að hún neytti amfetamíns inni í herberginu þar sem atvik áttu sér stað. Fyrir liggur að eftir atvikið mældist mikið magn af amfetamíni í blóði konunnar. Sérfræðingar báru, að amfetamín hefði örvandi áhrif á líkamann og fylgdi því aukin hvatvísi og skert dómgreind, sem hefði mikil áhrif á ákvarðanatöku. Þá hefði inntaka amfetamíns þau áhrif að auka kynhvöt.

Þá sögðu sérfræðingar að konan hefði lýst einkennum, sem væru þekkt sem afleiðingar áfallastreitu. Vel væri þekkt að þeir, sem aðhefðust eitthvað sem samræmdist ekki þeirra „karakter“, reyndu að útskýra það sem gerðist, jafnvel með því að búa til nýjar minningar. Þeir sem muni ekki allt sem gerst hefur reyni oft að fá botn í það eftir á. Það sé vel þekkt hjá fólki sem hefur orðið fyrir áfalli að það búi til minningar sem það trúir.

Dómurinn taldi, að ekkert hefði fram komið sem hnekki staðhæfingu konunnar um að hún hafi skynjað atvik með þeim hætti sem hún lýsti og því væri ósannað, að hún hefði borið mennina fjóra röngum sökum af ásetningi.

Þrír mannanna kröfðust samtals á þriðju milljónar króna í skaðabætur en þeim kröfum var vísað frá dómi. Þá greiðist sakarkostnaður, 2 milljónir króna, úr ríkissjóði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert