Töfum í atvinnuuppbyggingu beint gegn tekjulágum

Smábátahöfnin í Keflavík
Smábátahöfnin í Keflavík Arnór Ragnarsson

Ríkisstjórnin verður að taka af skarið um að verkefni verði ekki tafin frekar, sem fengið hafa eðlilegan undirbúning og hafa fylgt í öllum atriðum eðlilegum stjórnsýsluleiðum. Þetta segir í ályktun borgarafundar um atvinnumál á Suðurnesjum, sem haldinn var í Fjölbrautarskóla Suðurnesja nú í kvöld. Fundarmenn krefjast þess í ályktuninni að ríkisstjórnin „standi með Suðurnesjamönnum í þeirri miklu atvinnuuppbyggingu sem nú gæti hafist á svæðinu um næstu áramót og haft jákvæð áhrif fyrir allt landið, “

„Stærstu áformin í atvinnuuppbyggingu, s.s. álver, kísilver og gagnaver, krefjast orku sem þarf að flytja á milli staða. Þeim er teflt í tvísýnu með ákvörðun umhverfisráðherra að tefja enn frekar vinnu við raforkulagnir um Suðurnes,“ segir í ályktuninni. „Óljóst er hvort tafir á uppbyggingu vegna ákvörðunar ráðherrans þýða mánuði eða ár. Þá hefur ríkisstjórnin ekki svarað því hvort og með hvaða hætti hún hyggst styðja hafnargerð í Helguvík sem langt er komin. Þessi mál verður ríkisstjórnin strax að leysa.“

Borgarafundurinn ályktaði jafnframt að öllum töfum í atvinnuuppbyggingu væri stefnt gegn tekjulágu fólki og atvinnulausum, sem beðið hefðu árum saman eftir nýjum atvinnutækifærum. Yfir 1.600 manns eru nú atvinnulausir á Suðurnesjum. Borgarafundurinn minnir á að brotthvarf bandaríska varnarliðsins frá Suðurnesjum, fyrir aðeins þremur árum, hratt af stað stærstu hópuppsögnum í sögu þjóðarinnar á undan núverandi kreppu.  Þá töpuðust 900 störf.

„Þau fjölbreyttu atvinnutækifæri sem unnin hafa verið á undanförnum árum í samstarfi sveitarfélaga, launþegahreyfingar og atvinnufyrirtækja á svæðinu, eru nú tilbúin til framkvæmda og geta skapað þúsundum manna atvinnu frá áramótum. Napur veruleiki atvinnuleysis og lágra launa gæti því breyst fyrir mjög marga strax um næstu áramót með fyrirhuguðum stórverkefnum á sviði álvinnslu í Helguvík. Laun í álveri eru umtalsvert hærri en þau meðallaun sem íbúar búa nú við.

Í framhaldi af því bíða fjölmörg önnur vel launuð og áhugaverð störf m.a. tengd rafrænu gagnaveri, heilsuuppbyggingu, tónlistarsköpun, kolefnisnýtingu, flugþjónustu og áframhaldandi styrkingu menntastoða hjá Keili.

Ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar vinna með Suðurnesjamönnum, geta þúsundir manna fengið að nýju atvinnu og aðrir notið betur launaðra starfa strax um næstu áramót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert