„ÉG er bara að benda á hið augljósa og átta mig ekki á því hvers hagur það sé að tala ekki um staðreyndir málsins,“ segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Vísar hún þar til ummæla sinna í viðtali við Fréttablaðið sl. laugardag þar sem hún benti á að endanleg fjármögnun Hverahlíðarvirkjunar lægi ekki fyrir og að orkuöflun fyrir álver í Helguvík væri enn óljós.
Í framhaldinu sendu forstjóri og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðu ótækt að búa við það að „fulltrúi ríkisstjórnarinnar leitist við að draga úr fjárhagslegum trúverðugleika“ OR.
„Við verðum að geta talað um stöðuna eins og hún er,“ segir Svandís og bætir því við að sér þyki viðbrögð forsvarsmanna OR ekki hafa borið vott um að þeim væri efst í huga að tryggja trúverðugleika fyrirtækisins heldur frekar að menn væru lagðir upp í pólitískan leiðangur. „Ég held að Orkuveitumenn verði að tala varlegar sjálfir ef þeim er annt um orðspor, stöðu og trúverðugleika fyrirtækisins,“ segir Svandís.