1.500 boðsbréf verða í dag send út vegna þjóðfundar, sem boðaður hefur verið á höfuðborgarsvæðinu 14. nóvember næstkomandi. Til fundarins er boðið 1.200 Íslendingum 18 ára og eldri, sem valdir eru af handahófi úr þjóðskrá. Auk þeirra er 300 fulltrúum stofnana og samtaka á Íslandi boðið að sitja fundinn.
Að undirbúningi fundarins stendur hópur sem kallar sig Mauraþúfuna, en nafngiftin vísar að sögn talsmanna hópsins til þess að í sameiningu er hægt að færa til hlöss, sem hver og einn ræður ekki við.
Tilgangur fundarins er að „hefja þjóðfélagsumræðuna upp yfir dægurþras og deilur um einstök verkefni og beina sjónum að framtíðarsýn, byggðri á sameiginlegu gildismati þjóðarinnar. Markmið þjóðfundarins er að virkja visku fjöldans og gera hana aðgengilega fyrir alla, sem hafa hug á að leggja sitt af mörkum til endurreisnar íslensks samfélags og efnahagslífs.“
Í tilkynningu vegna fundarins segir að skoðanakannanafyrirtæki hringi daglega í slembiúrtök úr þjóðskrá og spyrji fólk út í sjónarmið þess og skoðanir. Hinsvegar hafi marktækt úrtæk heillar þjóðar aldrei áður verið boðað á fund á einum stað til að tala saman.
Á fundinum verður að sögn talsmanna unnið
eftir sérstakri aðferðafræði, sem miðar að því að tryggja að allir þátttakendur
komist að í umræðunni og sjónarmið allra heyrist. Unnið verður allan daginn í
níu manna hópum og öflug bakvinnsla sér um að taka saman niðurstöður og
hugmyndir, sem kvikna á fundinum.
Að hópnum Mauraþúfunni stendur fólk með fjölbreyttar skoðanir og bakgrunn, sem samkvæmt tilkynningu hefur „fyrst og fremst brennandi áhuga á að bæta samfélagið og varða leiðina til bjartrar framtíðar Íslands. Allt starf hópsins er unnið í sjálfboðavinnu og fundurinn er fjármagnaður með framlögum og styrkjum stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Fundurinn og niðurstöður hans verða eign þjóðarinnar; allir eiga að geta nýtt sér þær en enginn einn eða fáir að geta eignað sér þær.“
Þátttakendur, sem fá boðsbréf inn um lúguna hjá sér á næstu dögum, eru beðnir að staðfesta komu sína á fundinn á www.thjodfundur2009.is eða í síma 856 9331, 856 9332 eða 856 9333. Haft verður samband við þá sem ekki hafa skráð sig fyrir 17 október. Þeir, sem koma langt að, munu fá ferðastyrki og þeir, sem ekki eiga kost á gistingu hjá ættingjum eða vinum í höfuðborginni, geta nýtt sér tilboð á gistiheimilum eða þegið heimagistingu.