Lyfjaframleiðandinn GlaxoSmithKline hefur sent bréf til allra apóteka og heilbrigðisstofnana á Íslandi og beðið um að bæklingur um þunglyndi, sem fyrirtækið gaf út árið 2000 og hefur staðið fólki til boða á fyrrgreindum stöðum, verði tekinn úr umferð.
Ástæðan er sú að í bæklingnum var gefið í skyn að lyf væru eina aðferðin til að lækna þunglyndi og sálfræðimeðferð væri gagnslítil í baráttunni við sjúkdóminn.
Bæklingurinn hafði legið frammi fyrir almenningi í hartnær áratug eða þangað til Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur las bæklinginn í byrjun janúar sl., sá að upplýsingar í honum stönguðust á við rannsóknir sem sýndu að þunglyndislyf væru ekki eins virk og áður hafði verið talið, og kærði bæklinginn til landlæknis.