Hæstiréttur hefur fallist á kröfu spænska bankans Aresbank um að matsmenn verði dómkvaddir til að það hvort peningamarkaðsinnlán í íslenskum bönkum fyrir hrun teljist innlend innlán, sem íslenska ríkið ábyrgðist.
Aresbank (Banco Arabe Espanol), sem er nær að öllu leyti í eigu líbýska seðlabankans, höfðaði málið í febrúar gegn Nýja Landsbankanum, NFI, en Fjármálaráðuneytinu og íslenska ríkinu til vara. Snýst málið um peningamarkaðslána, sem bankinn veitti Landsbankanum fyrir hrun. Fjármálaeftirlitið mat lánin svo að þau væru ekki innstæður og ættu því ekki að flytjast í Nýja Landsbankann en því er Aresbank ósammála.
Fram kemur í dómi Hæstaréttar í dag, að alls hafi Aresbank lagt með svokölluðum peningamarkaðsinnlánum 30 milljónir evra og 7 milljónir breskra punda inn hjá Landsbankanum, en samtals eru þetta tæpir 7 milljarðar króna. Aresbank veitti hinum bönkunum, Kaupþingi og Glitni, einnig svipuð lán fyrir bankahrun.
Aresbank fór fram á það í sumar, að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta tiltekin atriði varðandi svo kölluð peningamarkaðsinnlán, m.a. muninn á þeim og öðrum innlánum, ef einhver væri, meðhöndlun þeirra og framkvæmd á alþjóðlegum bankamarkaði. Matsatriði voru tilgreind nánar í fjórtán töluliðum í beiðninni og féllst héraðsdómur á að matsmenn svöruðu 10 þeirra. Hæstiréttur hefur nú staðfest þann úrskurð en bætt við einni spurningu, sem hann telur að matsmenn þurfi ekki að svara.