Gylfi: Ánægja með lausn

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra ræddi við blaðamenn við tröppur Stjórnarráðsins í …
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra ræddi við blaðamenn við tröppur Stjórnarráðsins í morgun. mbl.is/Jón Pétur

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að endurreisn bankanna muni ljúka á næstu dögum og vikum. Í þessari viku muni komast á hreint hverjir muni eignast Íslandsbanka og lok október komi í ljós hverjir muni eignast Kaupþing. „Það liggur líka fyrir hvernig gengið verður frá skilunum á milli gamla og nýja Landsbankans,“ sagði Gylfi að loknum ríkisstjórnarfundi fyrir hádegi í dag.

Hann segir að málin séu að komast á lokastig en rétt sé að hafa fyrirvara á málum. „Það er ekki búið að taka ákvörðun um Íslandsbanka og Kaupþing, en skilanefndirnar gera það núna alveg á næstunni.“

Spurður hvers vegna hjólin fóru að snúast hraðar síðustu daga segir Gylfi: „Það má alveg eins spyrja: „Af hverju tók þetta svona langan tíma?“ Þetta tók aðeins lengri tíma heldur en að var stefnt. En núna er þetta að leysast og ég held að allir geti verið ánægðir með það,“ segir ráðherra, málið hafi tafist af ýmsum ástæðum.

Gylfi tekur fram að það sé grundvallarmunur á þeirri niðurstöðu sem nú stefni í og þeirri sem lagt hafi verið upp með fyrir um ári síðan. Þá hafi hugmyndin verið að ríkið myndi eignast alla bankana að fullu. Nú sé allt útlit fyrir að ríkið eignist Landsbankann - mögulega að fullu eða eitthvað minna en það. Og að ríkið muni eiga mjög lítinn hluta í Íslandsbanka og Kaupþingi. „Ég tel það vera mjög til bóta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert