Mikill áhugi var á uppboði Gallerís Foldar, sem fram fór í gærkvöldi, og var fullt út úr dyrum að sögn Tryggva Páls Friðrikssonar listmunasala. Hann segir hins vegar að fjárhæðirnar séu ekki þær sömu og þegar best lét, nú séu þær svipaðar því sem var um áramótin 2004/2005.
Alls voru 99 verk voru boðin upp og að sögn Tryggva var meirihluti verkanna, eða um 85 verk, slegin á uppboðinu. Mörg þeirra fóru hins vegar á lægra verði en menn höfðu vonast til. Ljóst er að efnahagskreppan hefur haft sín áhrif á listmunasöluna.
„Það var lágt verð á sumu en svo kom annað þokkalega vel út, og eiginlega á óvart,“ segir Tryggvi. Dýrasta verkið sem var selt að þessu sinni var olíuverkið Yfir sundin eftir Louisu Matthíasdóttur, en það var slegið á 4,5 milljónir kr., en svo leggjast uppboðs- og höfundarréttargjöld ofan á þá upphæð. Sú mynd var metin á 5,5 til 6 milljónir kr.
Þá segir Tryggvi að tvö verk eftir Þorvald Skúlason, verk eftir Gunnlaug Blöndal, Eyborgu Guðmundsdóttur og Hring Jóhannesson hafi farið á ágætu verði, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Aðspurður segir Tryggvi að það hafi komið á óvart að falleg mynd eftir Þórarinn B. Þorláksson hafi ekki verið seld á uppboðinu í gær.
Spurður um mótmæli Sambands íslenskra myndlistarmanna, sem hófust rétt áður en uppboðið hófst, segir Tryggvi að allt hafi farið friðsamlega fram. „Þetta fólk er alltaf velkomið hingað, en það kemur allt of sjaldan,“ segir Tryggvi.