Sala á áfengi minnkar um 14%

Verð á áfengi er 36% hærra í september síðastliðnum en …
Verð á áfengi er 36% hærra í september síðastliðnum en í sama mánuð í fyrra. mbl.is/Golli

Velta í dagvöruverslun dróst saman um 4,3% á föstu verðlagi, en þá er miðað við þá krónutölu sem er í gangi hvert sinn sem mælt er óháð öllum öðrum áhrifum, í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 13,3% á breytilegu verðlagi, en þá á sér stað leiðrétting á verðlaginu með því að taka tillit til verðbreytinga sem hafa orðið á tímabilinu.

Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu dagvöruverslana í september 4,4% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 18,4% á síðastliðnum 12 mánuðum, samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.
 
Sala áfengis minnkaði um 11,5% í september miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og jókst um 20,3% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu áfengis í september 14% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 36% hærra í september síðastliðnum en í sama mánuð í fyrra.
 
Minna selst af fatnaði, raftækjum og húsgögnum

Fataverslun var 0,3% minni í september miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi en jókst um 23,7% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Í september dróst fataverslun saman um 17,6% frá mánuðinum á undan á föstu verðlagi. Verð á fötum var 24% hærra í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. 
 
Velta skóverslunar jókst um 0,9% í september á föstu verðlagi og um 23,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði í september um 22,6% frá september í fyrra.
 
Velta húsgagnaverslana var 36,2% minni í september en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og 24,9% minni á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum var 17,8% hærra í september síðastliðnum miðaða við sama mánuð í fyrra.
 
Sala á raftækjum í ágúst dróst saman um 31,2% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 0,3% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Á milli mánaðanna ágúst og september minnkaði raftækjasala  um 16,1% á föstu verðlagi.

Töluverður samdráttur er enn í raunveltu smásöluverslunar á milli ára sem kemur sérstaklega fram í minni kaupum á dýrum og varanlegum vörutegundum, að því er segir í tilkynningu.
 
„Mestur samdráttur á milli ára er enn í húsgagnaverslun og raftækjaverslun eins og undanfarna mánuði. Hins vegar var sáralítill munur á veltu fata- og skóverslunar í september í samanburði við sama mánuð í fyrra að raunvirði. Venjulega dregst velta þessara verslana saman í september, en núna jókst velta skóverslunar frá ágústmánuði um 3,8% en dróst saman í fataverslun um 17,6%."

Verðhækkanir á fötum og skóm voru svipaðar á milli ára, 24% verðhækkun á fötum og 22,6% á skóm, samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar.
 
Verslun með dagvöru og áfengi í september var áfram minni að magni til bæði miðað við sama mánuð í fyrra og árið þar áður, eins og verið hefur flesta mánuði frá áramótum. Líklega hafa hækkanir á vörugjöldum og áfengisgjaldi einhver áhrif til samdráttar á sölu þessara vörutegunda auk verðáhrifa vegna veikingar krónunnar.
 
„Ekki þarf að fjölyrða um ástæður samdráttar í einkaneyslu og um leið veltu verslunar. En samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar var kaupmáttur launa 7,8% minni í ágúst síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra. Þar kemur einnig fram að innlend greiðslukortavelta hafi dregist saman um 17,9% að raunvirði í janúar til ágúst á þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka