Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, staðfesti í fjárlagaræðu í norska Stórþinginu í morgun, að Norðmenn muni veita 480 milljóna evra lán til Íslendinga.
Halvorsen sagði, að norsk stjórnvöld hefðu heitið því að veita Íslendingum og Lettum lán en þessi nágrannalönd Noregs hefðu orðið sérstaklega illa úti í fjármálakreppunni.
„Við leggjum sérstaka áherslu á að aðstoða Ísland í þeirri erfiðu stöðu sem landið er í. Noregur hefur beitt sér fyrir því að Norðurlöndin sameinist í að veita Íslandi fjárhagsaðstoð. Norska lánið nemur 480 milljónum evra, (um það bil 4,2 milljörðum norskra króna), en samanlagt nemur norræna lánið 1,8 milljörðum evra.
Við leggjum mikla áherslu á að Norðurlöndin sameinist með þessum hætti um að aðstoða Ísland. Það þjónar bæði hagsmunum Noregs og Íslands að styrkja norræna samvinnu og aðstoðin við Ísland tengist alþjóðlegri samvinnu," sagði Halvorsen.
Hún sagði, að Jens Stoltenberg, fjármálaráðherra, hefði í síðustu viku sent Jóhönnu Sigurðardóttur bréf þar sem hann staðfesti að norskt lán til Íslands yrði veitt innan norrænu samvinnunnar.
„Eins og forsætisráðherrann vill ég að Noregur og hin norrænu löndin styðji það starf, sem íslenska ríkisstjórnin er að vinna við að endurreisa efnahaginn og koma á eðlilegum samskiptum Íslands og umheimsins. Við munum halda áfram að fylgjast náið með stöðu mála á Íslandi," sagði Halvorsen.